Erlent

Enn ekkert spurst til týnda unga mannsins á Tenerife

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Síðast þegar vitað var af honum ætlaði hann að ganga heim yfir hrjóstrugt landslag eyjunnar. Það var á mánudagsmorguninn.
Síðast þegar vitað var af honum ætlaði hann að ganga heim yfir hrjóstrugt landslag eyjunnar. Það var á mánudagsmorguninn. Vísir/Samsett

Vinir Jay Slater, nítján ára gamals manns sem hefur verið týndur á Tenerife síðan á mánudagsmorgun, hafa beðið bresku og spænsku lögreglurnar um að veita þeim liðsauka í leitinni. Hann var í sínu fyrsta fríi án foreldra sinna þegar hann týndist.

Lögreglan á eyjunni hefur leitað að Jay árangurslaust síðan á mánudaginn með drónum og þyrlu. Það var þó ljóst að það yrði erfiðisverk þar sem svæðið sem hann sást síðast á er víðáttumikill og grýttur þjóðgarður. Síðasta þekkta staðsetning hans var á fjallvegi í Rural de Teno-þjóðgarðinum.

Lucy, vinkona Jay, er meðal þeirra sem flaug út til Tenerife til að aðstoða við leitina. Guardian hefur eftir henni að hún hafi tilkynnt Jay týndan í morgunsárið á mánudaginn. Þá hafði hún fengið frá honum símtal þar sem hann sagðist ætla ganga heim yfir eyðilegt fjallendið og að síminn hans væri við það að deyja. Ekkert hefur spurst til hans síðan.

„Ég held að þeir þurfi alla þá hjálp sem þeim gefst,“ segir hún í samtali við Guardian og á þá við lögregluna á Tenerife. Guardian það hefur eftir viðbragðsaðila á svæðinu að leitarteymi hafi ekki gefið upp vonina. Haldið verði áfram að leita og viðbragðsaðilar séu bjartsýnir að Slater sé enn á lífi.

„Það eru engar þyrlur hérna núna. Hann er búinn að vera týndur það lengi núna, hvað eru þeir eiginlega að gera?“ segir Lucy.

Ættingjar og vinir Slater hafa staðið að sjálfstæðri leit alveg frá mánudeginum og hafa gengið um fjalllendið endilangt í leit að merkjum um veru Slater þar. En ekkert bólar á honum enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×