Handbolti

Guð­mundur fer með Fredericia í Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson stýrir liði sínu í Meistaradeildinni næsta vetur.
Guðmundur Guðmundsson stýrir liði sínu í Meistaradeildinni næsta vetur. Getty/Simon Hofmann

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Fredericia Håndbold Klub fengu í dag boð frá evrópska handboltasambandinu um að spila í Meistaradeildinni í handbolta á næstu leiktíð. Þetta er stór stund fyrir danska félagið.

Guðmundur hefur gert frábæra hluti með Fredericia síðan hann tók við stjórnartaumunum þar. Liðið fór alla leið í oddaleik um danska meistaratitilinn í vor þar sem Fredericia tapaði naumlega á móti stjórstjörnulið Álaborgar.

Álaborgarliðið fór einni alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem sýnir enn fremur hversu góða hluti Fredericia var að gera í úrslitakeppninni.

Það var líka tekið eftir þessu hjá þeim sem ráða. Fredericia fékk svokallað boðsæti frá evrópska sambandinu en í dag var gefið út hvaða félög verða með næsta vetur.

Liðin sex sem voru einnig tekin inn voru HC Zagreb (Króatía), HBC Nantes (Frakkland), OTP Bank-Pick Szeged (Unverjaland), HC Eurofarm Pelister (Norður Makedónía), Industria Kielce (Pólland) og Dinamo Búkarest (Rúmenía). 

Liðin sem fengu ekki náð fyrir augum ráðamanna hjá evrópska sambandinu voru aftur á móti Elverum Håndball (Noregur), FC Porto (Portúgal), Tatran Presov (Slóvakía), Bidasoa Irun (Spánn) og Kadetten Schaffhausen (Sviss). Íslenskir landsliðsmenn spila með tveimur af þessum félögum eða  Porto (Þorsteinn Leó Gunnarsson) og Kadetten (Óðinn Þór Ríkharðsson). Öll þessi lið geta í staðinn tekið þátt í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×