Sport

Álfta­nes semur við tveggja metra Frakka

Stefán Árni Pálsson skrifar
Yetna hefur lengi leikið í Bandaríkjunum.
Yetna hefur lengi leikið í Bandaríkjunum.

Alexez Yetna er genginn til liðs við Álftanes og mun leika með liðinu í Subway deild karla á næsta tímabili.

Um er að ræða 203 sentímetra miðherja sem kemur til félagsins eftir níu ára dvöl í Bandaríkjunum, þar sem hann lék bæði í framhaldsskóla og háskóla. Þetta kemur fram á Facebook-síðu félagsins.

„Mikil gleði ríkir í okkar herbúðum með að fá Yetna á Álftanesið,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftnesinga, í tilkynningu Álftnesinga.

„Þetta er virkilega kröftugur leikmaður sem hefur hjálpað þremur mismunandi háskólaliðum að vinna leiki. Hann hefur margt í sínum leik sem við teljum að muni passa inn í okkar leikstíl, bæði í vörn og sókn.”

„Ég er ákaflega spenntur að spila fyrir Álftanes. Sýn þjálfarateymisins samræmist algjörlega því sem ég var að leitast eftir, þetta passar allt fullkomlega saman,“ útskýrir Yetna.

Hann er spenntur að flytja til Íslands. “Ég hef heimsótt landið einu sinni og hreifst af fólkinu sem var svo gestrisið og gott. Ég get ekki beðið eftir að kynnast öllum á Álftanesi, samfélaginu í kringum liðið og aðdáendum.”

Alls lék Yetna 98 leiki í háskólaboltanum og endaði með 9,7 stig og 8 fráköst að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×