Innlent

Starfs­leyfi aftur­kallað vegna ó­við­unandi aðbúnaðs og um­gengni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Frá tjaldssvæðinu í Þrastaskógi en félag í eigu athafnamannsins Sverris Einars Eiríkssonar er rekstraraðili svæðisins. Heilsbrigðisnefnd Suðurlands hefur fellt starfsleyfi tjaldsvæðisins úr gildi.
Frá tjaldssvæðinu í Þrastaskógi en félag í eigu athafnamannsins Sverris Einars Eiríkssonar er rekstraraðili svæðisins. Heilsbrigðisnefnd Suðurlands hefur fellt starfsleyfi tjaldsvæðisins úr gildi. Vísir

Heilsbrigðisnefnd Suðurlands hefur fellt úr gildi starfsleyfi á tjaldsvæðinu í Þrastaskógi í Grímsnesi. Nefndin segir aðbúnað og umgengni með öllu óviðeigandi og að gistiþjónusta sé rekin án allra leyfa.

Heilbrigðisnefnd Suðurlands felldi starfsleyfi tjaldsvæðisins í Þrastaskógi úr gildi á síðasta fundi nefndarinnar þann 11. júní síðastliðinn. Félagið V63 ehf. er rekstraraðili tjaldsvæðisins en félagið er alfarið í eigu athafnamannsins Sverris Einars Einars Eiríkssonar sem ítrekað hefur verið í fréttum vegna ýmissa mála.

Í fundargerð heilbrigðisnefndarinnar frá 11. júní kemur fram að samkvæmt eftirlitsskýrslu sé aðbúnaður og umgengni á tjaldsvæðinu með öllu óviðunandi og uppfylli ekki skilyrði. Því hefur starfsleyfið verið fellt úr gildi.

Einnig kemur fram í fundargerðinni að gistiþjónusta sé rekin án allra leyfa í tjöldum, trukkum og kúluhýsum sem ekki sé byggingaheimild fyrir. Kúluhýsin hafi verið reist á lóðinni án heimildar skipulags- og byggingaryfirvalda.

Sverrir svaraði spurningum blaðamanns í tölvupósti nú undir kvöld þar sem hann sagði að heilbrigðiseftirlitið hefði tekið tjaldsvæðið út í vikunni og að svæðið muni opna þann 1. júlí.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sverrir er til umfjöllunar vegna sama svæðis en á síðasta ári fór Landsbankinn fram á nauðungarsölu Þrastalunds vegna skuldar Sverris við bankann.  Tjaldsvæðið í Þrastaskógi er skammt frá veitingastaðnum Þrastalundi sem verið hefur nokkuð vinsæll áfangastaður innlendra og erlendra ferðamanna í gegnum árin.


Tengdar fréttir

Húsnæði B5 auglýst til leigu enn og aftur

Atvinnuhúsnæði við Bankastræti 5 í miðborg Reykjavíkur hefur verið auglýst til leigu eina ferðina enn. Undanfarin ár hefur skemmtistaðurinn B5 verið þar til húsa, allt þar til í lok apríl.  Húsnæðið er í eigu Fasteignafélagsins Eik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×