Erlent

Hljóp ber­fætt undan sprengjuregninu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Fjölskyldan heldur til í tjöldum á vegum Rauða krossins.
Fjölskyldan heldur til í tjöldum á vegum Rauða krossins. AP/Jehad Alshrafi

Minnst þrjátíu og átta eru sagðir látnir og fleiri slasaðir eftir loftárásir Ísraelshers á Gasa í dag. Talsmaður almannavarna á svæðinu segir að þekktar flóttamannabúðir hafi orðið fyrir skotum.

Talsmaður ísraelska hersins segir að árásirnar hafi beinst að tveimur svæðum sem liðsmenn Hamas eru sagðir halda til á Gasasvæðinu.

Talsmaður almannavarna segir hins vegar að sprengjur hafi hæft fjölbýlishús auk þess sem þekktar flóttamannabúðir hafi orðið fyrir skotum.

Myndbandsupptökur sýna fólk bera særða á brott, rykfallnar götur og ástvini leita að eftirlifendum í húsarústum.

Tjöld og skrifstofur Rauða krossins urðu fyrir sprengjum

Í gær voru tuttugu og tveir, sem leituðu skjóls í tjöldum á vegum Rauða krossins, drepnir í loftárás sem gerð var á Gasasvæðið. Mona Ashour er ein þeirra sem missti ástvin í sprengingunni.

„Við vorum inni í tjaldinu þegar hvellsprengja sprakk nálægt Rauðakrosstjöldunum. Maðurinn minn fór út eftir fyrstu sprenginguna. Svo sprakk önnur sprengja, enn nær dyrunum hjá Rauða krossinum, og fólkið fór að safnast saman. Ég reyndi að ná sambandi við manninn minn en gat það ekki. Við flúðum eins og við vorum klædd, berfætt. Ég reyndi að ná sambandi við hann en gat það ekki,“ sagði Mona Ashour.

Skrifstofur Rauða krossins urðu fyrir miklum skemmdum í sprengingunni og segir í tilkynningu frá samtökunum að árásin sé ein af alvarlegustu öryggisbrestum síðustu daga.

Talsmaður ísraelska hersins sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, að málið væri til skoðunar. Við fyrstu athugun bendi ekkert til þess að herinn hefði beint loftárásum sínum þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×