Fótbolti

Enn eitt EM-metið til Ronaldo

Siggeir Ævarsson skrifar
Cristiano Ronaldo er að leika á EM í sjötta sinn. Enginn leikmaður hefur leikið það eftir
Cristiano Ronaldo er að leika á EM í sjötta sinn. Enginn leikmaður hefur leikið það eftir vísir/Getty

Hinn 39 ára Cristiano er að leika á lokakeppni Evrópumótsins í fimmta sinn á ferlinum en hann er eini leikmaðurinn sem hefur farið svo oft á EM. Hann fór á sitt fyrsta lokamót með portúgalska landsliðinu 2004 og hefur síðan þá sankað að sér ýmsum metum.

Ronaldo hefur verið duglegur við að leggja upp mörk á þessum mótumog lagði eitt slíkt upp í dag þegar Bruno Fernandes skoraði í autt mark Tyrklands. Þetta var áttunda stoðsending Ronaldo á EM og jafnar hann þar með met Karel Poborský. Til að eiga metið einn verður hann að leggja upp að minnsta kosti eitt mark til í sumar.

Það kemur sennilega engum á óvart að Ronaldo er markahæstur í sögu EM, með 14 mörk. Næstur á lista er hinn franski Michel Platini með níu mörk. Hann er auðvitað löngu hættur svo að metið er sennilega ekki í hættu næstu árin.

Þá er Ronaldo einnig markahæstur í öllum leikjum EM, þ.e. ef undankeppnin er talin með, með 55 mörk. Harry Kane kemur næstur með 28 og Robert Lewandowski og Romelu Lukaku eru báðir með 27.

Fleiri met í sjónmáli?

Ronaldo gæti sett í það minnsta þrjú met enn á mótinu núna, nánast bara vegna aldurs. Til þess þarf þó eitt og annað að ganga upp hjá liðinu.

Ef Ronaldo skorar á mótinu verður hann elsti markaskorarinn en Ivica Vastic frá Austurríki var 38 ára og 257 daga gamall þegar hann skoraði á EM 2008.

Ef Portúgal kemst í úrslit verður hann elsti leikmaðurinn til að spila úrslitaleik, að því gefnu að Pepe taki ekki þátt, en Pepe er 41 árs. Ef liðið kemst í úrslit og Ronaldo skorar þar verður hann sömuleiðis elsti markaskorarinn í úrslitaleik mótsins.

Það eiga þó eflaust nokkrir leikmenn möguleika á því meti, en Leonardo Bonucci var 34 ára og 71 daga gamall þegar hann skoraði fyrir Ítalíu í úrslitaleiknum 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×