Lífið

Ben McKenzie á Kaffi Vest

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ben McKenzie við Vesturbæjarlaugina í dag.
Ben McKenzie við Vesturbæjarlaugina í dag.

Bandaríski leikarinn Ben McKenzie sem sló í gegn í sjónvarpsþáttunum The O.C. upp úr aldamótum er staddur hér á landi. Hann skellti sér á Kaffihús Vesturbæjar í samnefndum hluta Reykjavíkur í dag á meðan eiginkona, móðir og börn busluðu í Vesturbæjarlauginni.

Nokkrir gestir á Kaffi Vest ráku upp stór augu þegar þeir sáu bandarísku Hollywood stjörnuna sitjandi og drepa tímann á kaffihúsinu. McKenzie lék Ryan Atwood í unglingaþáttunum The O.C. en meðal gesta á Kaffi Vest voru einmitt aðdáendur þáttanna sem nutu mikilla vinsælda hér á landi.

Ben og Mischa Barton í hlutverkum sínum í The O.C.

Eftir innlitið á Kaffi Vest hélt McKenzie í Vesturbæjarlaugina og sótti konu sína og börn. McKenzie er kvæntur leikkonunni Morenu Baccarin og saman eiga þau tvö börn. Baccarin á barn úr fyrra sambandi.

Morena Baccarin og Ben McKenzie á verðlaunahátíð í New York í nóvember í fyrra.WireImage/Dia Dipasupil

Baccarin hefur verið á Íslandi við tökur á kvikmyndinni Greenland: Migration. Hún leikur með Gerard Butler í myndinni en tökur fara fram á suðvesturhorninu. Framleiðslufyrirtækið True North kemur að gerð myndarinnar.

McKenzie var í aðalhlutverkum í dramaseríunni Southland og sömuleiðis sjónvarpsþáttaröðinni Gotham. Þá hefur hann sinnt skrifum, leikstjórn og reynt fyrir sér á Broadway undanfarin ár. Hann er mikill efasemdamaður um rafmyntir og hefur komið gagnrýni sinni á framfæri í eigin bók.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.