Á vef BBC segir að ísraelski herinn, IDF, hafi staðfest að atvikið hafi átt sér stað. Í yfirlýsingu frá IDF segir að maðurinn hafi særst í átökunum og að hann væri grunaður um hryðjuverk. Málið er til rannsóknar hjá ísraelska hernum. Myndbandið er hægt að sjá á vef Reuters.
Í tilkynningu segir að hryðjuverkamenn hafi byrjað að skjóta á hermenn ísraelska hersins þegar þeir voru staddir í Jenín við handtöku. Einn þeirra grunuðu hafi særst í átökunum og verið handtekinn. Þá segir í yfirlýsingu IDF að það samræmist ekki gildum IDF að taka mann til handtöku með þessum hætti.
Fjölskylda mannsins segir að þegar þau hafi óskað eftir því að kallað yrði á sjúkrabíl hafi hermenn tekið manninn, fest hann við húdd bílsins og ekið burt.
Í myndbandinu má sjá þá aka fram hjá tveimur sjúkrabílum palestínska Rauða krossins. Í frétt CNN er haft eftir starfsfólki Rauða krossins að ísraelsku hermennirnir hafi neitað þeim um að sinna manninum Maðurinn var að enda fluttur til Rauða krossins þar sem hlynnt var að honum. Ísraelski herinn segir að atvikið verði rannsakað.
Í frétt Reuters um málið er rætt við vitni að atvikinu. Þar kemur fram að maðurinn sé frá Jenín og að hann heiti Mujahed Azmi.
Tilkynnt hefur verið um aukningu í ofbeldi á Vesturbakkanum allt frá því að stríðið hófst á Gasa í október. Sameinuðu þjóðirnar segja allt að 480 Palestínumenn hafa verið drepna á Vesturbakkanum frá því í október. Það eru hermenn og almennir borgarar. Af þeim eru um 100 börn. Á sama tíma hafa tíu Ísraelar verið drepnir á Vesturbakkanum.