Innlent

Fara enn huldu höfði þrátt fyrir fjölda vís­bendinga

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Innbrotsþjófarnir virtust ekki kippa sér upp við eftirlitsmyndavélina.
Innbrotsþjófarnir virtust ekki kippa sér upp við eftirlitsmyndavélina. Skjáskot

Mennirnir tveir sem brutust inn í veitingasal Brunnhóls á Mýrum í Hornafirði í gær og höfðu þaðan með sér öryggiskassa fara enn huldu höfði. Lögreglunni á Suðurlandi hefur borist þó nokkrar vísbendingar síðan að eigandi Brunnhóls birti myndskeið af mönnunum að fara ránshendi um gistihúsið. 

Þetta staðfestir Einar Sigurjónsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við Vísi. Spurður hvort að mennirnir gætu verið komnir úr landi segist hann ekki geta fullyrt um það. 

Gætu verið komnir úr landi

„Almennt séð ef við ætluðum að vera fullviss um að þeir væru ekki komnir úr landi þyrftum við að vita með fullri vissu um hverja væri að ræða. Við erum í rauninni ekki með neina tryggingu fyrir því en ekki heldur neinar vísbendingar um að þeir séu komnir úr landi. “

„Við höfum einhverjar vísbendingar sem við fengum í gær sem við þurfum að fylgja eftir. Það er ekki hægt að gefa það upp hvað það er í sjálfu sér,“ segir hann og tekur fram að vísbendingarnar hafi borist lögreglu eftir að Sigurlaug Gissuradóttir, eigandi Brunnhóls, birti myndskeið af mönnunum. 

Spurður hvort að lögreglan viti eitthvað um ferðir mannanna eftir þjófnaðinn svarar Einar því neitandi en tekur fram að þeim hafi borist nokkrar tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir sem lögreglan mun nú kanna. Hann segir að ekki sé hægt að segja til um hvor að um mennina tvo sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×