Innlent

Tækni­skólinn og Kvenna­skólinn vinsælastir

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Tækniskólinn hlaut flestar umsóknir.
Tækniskólinn hlaut flestar umsóknir. Vísir/Vilhelm

Innritun nemenda í framhaldsskóla er nú lokið en alls bárust 4.677 umsóknir fyrir haustið. Flestar umsóknir voru með Tækniskólann eða Kvennaskólann í vali eitt eða tvo. Öllum umsækjendum var tryggt pláss í skóla fyrir veturinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Tækniskólanum barst 833 umsóknir fyrir haustið. Þar af voru 441 nemendur með skólann í fyrsta vali og 392 með skólann í öðru vali. Alls voru 383 nemendur innritaðir. 

Fleiri með kvennaskólann í öðru vali en fyrsta

711 nemendur voru með Kvennaskólann í Reykjavík í fyrsta eða öðru vali. Þar af voru 308 með skólann í fyrsta vali en 403 með skólann í öðru vali. Flestir nemendur voru með Verzlunarskóla Íslands í fyrsta vali eða 522 nemendur en 370 nemendur voru innritaðir. 161 voru með Verzlunarskólann í öðru vali.

Fæstir völdu Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu en nítján nemendur voru með skólann í fyrsta vali og þrír í öðru vali. Nítján nemendur voru innritaðir í skólann. Hér fyrir neðan er hægt að sjá tölur um umsóknir í hvern og einn framhaldsskóla.

Hér má sjá hversu margir sóttu um í hvern skóla.Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

Samþykktu allar umsóknir í verknám

„Allir nýnemar úr grunnskóla sem sóttu um hafa fengið inngöngu. Þannig var hægt að samþykkja allar umsóknir í verknám en á undanförnum árum hefur þurft að vísa stórum hluta frá vegna skorts á aðstöðu og kennurum,“ segir í tilkynningunni.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og framhaldsskólar hafi lagt höfuðáherslu á að koma öllum nýnemum úr grunnskóla að á haustönn. 

84,5% nemenda í fyrsta val

„Það er mikill áfangi og vil ég þakka okkar öfluga skólafólki fyrir að svara ákallinu. Það er sérstakt ánægjuefni að sjá að skólakerfið okkar getur tekið við öllum nýnemum í verknám en það hefur einmitt verið eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar,“ er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, í tilkynningunni.

84,5 prósent nemenda fá inn í þeim skóla sem þau sóttu um sem fyrsta val. 11,8 prósent nemenda fá pláss í þeim skóla sem þau völdu sem annað val. 3,7 prósent nemenda var úthlutað plássi í þriðja skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×