Íslenski boltinn

Einn af hverjum tíu glímt við and­lega van­líðan vegna veð­mála

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik FH og Fylkis í Bestu deild karla í knattspyrnu.
Úr leik FH og Fylkis í Bestu deild karla í knattspyrnu. Vísir/Diego

Íslenskur Toppfótbolti, hagsmunasamtök þeirra félaga sem reka lið í efstu deildum karla og kvenna, sendi frá sér fréttabréf þar sem birtar voru niðurstöður úr skoðanakönnun sem gerð var meðal leikmanna í Bestu deild karla vegna veðmálaþátttöku.

Íslenskur Toppfótbolti, ÍTF, framkvæmdi nýverið skoðanakönnun meðal leikmanna Bestu deildar karla þar sem spurt var um þátttöku þeirra í veðmálum og getraunaleikjum. Könnunin er hluti af verkefni ÍTF sem snýr að fræðslu um veðmálaþátttöku og hagræðingu úrslita.

„Helstu niðurstöður könnunarinnar gefa sterklega til kynna að mikill meirihluti leikmanna í Bestu deild karla taki þátt í einhvers konar veðmálum eða getraunaleikjum og meirihluti þeirra veðji á fótboltaleiki í gegnum erlendar veðmálasíður,“ segir í fréttabréfi ÍTF.

Athygli vekur að tíu prósent leikmanna, einn af hverjum tíu leikmönnum sem svöruðu könnunni, segjast hafa glímt við andlega vanlíðan vegna veðmála. Samræmist það niðurstöðu úr könnun sem var gerð meðal leikmanna í efstu deild karla í Svíþjóð, Allsvenskan. Einnig vekur sérstaka athygli að sáralítill hluti leikmanna segist veðja á knattspyrnuleiki hér á landi.

Nærri helmingur leikmanna deildarinnar hefur fengið fræðslu að einhverju tagi um hugsanleg tengsl veðmála og hagræðingu úrslita í fótboltaleikjum. Þá sögðust 40 prósent leikmanna vera tilbúnir að sækja slíka fræðslu ef hún stæði til boða. 

Að endingu telur meirihluti leikmanna, um 75 prósent, að tíðni fjárhættuspila eða veðmála leikmanna í deildinni sé mikil eða mjög mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×