Innlent

Um­tals­vert tjón og tveimur bjargað úr húsinu

Vésteinn Örn Pétursson og Tómas Arnar Þorláksson skrifa
Jens Heiðar Ragnarsson er slökkviliðsstjóri á Akranesi.
Jens Heiðar Ragnarsson er slökkviliðsstjóri á Akranesi. Vísir/Bjarni

Slökkvistarfi vegna bruna í fjölbýlishúsi á Akranesi er lokið. Slökkvilið sótti tvo í húsið með stigabíl, en þeim var þó ekki búin bráð hætta. 

„Slökkvistarfið gekk mjög vel. Við vorum fljótir að ná tökum á eldinum og slökkva hann,“ segir Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri á Akranesi,

„Íbúðin var mannlaus, þannig að það skapaðist ekki hætta í íbúðinni sjálfri. Eldurinn var staðbundinn. Það var fólk á efstu hæð sem við tókum út með stigabíl til öryggis vegna þess að stigahúsið fylltist af reyk,“ sagði Jens og bætti við þeir tveir sem inni voru hafi haft það fínt inni í íbúðinni, en betra hafi verið að nota stigabílinn vegna reyksins.

„Það er mikið tjón á íbúðinni vegna elds og reyks, og það er mjög mikið tjón í stigagangi. Flestar íbúðir eru mengaðar af reyk og sóti. Þetta eru tólf íbúðir, þannig að þetta er mikið tjón.“

Jens segir engan hafa slasast en fólkið sem slökkvilið náði út úr húsinu var flutt á heilbrigðisstofnun til öryggis. 

Frá vettvangi brunans.Vísir/Bjarni
Tjónið er umtalsvert.Vísir/Bjarni

Tengdar fréttir

Eldur í fjölbýlishúsi á Akranesi

Töluverður viðbúnaður er á Akranesi vegna elds í fjölbýlishúsi. Eldurinn var á fyrstu hæð í þriggja hæða blokk á Akranesi. Enginn var heima í íbúðinni sem eldurinn var í. Tveir voru heima í öðrum íbúðum en eru ekki slasaðir. Slökkvilið vinnur nú að því að reykræsta húsið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×