Innlent

Tæp­lega tvær milljónir eldislaxa drápust í sjó­kvíum

Jakob Bjarnar skrifar
Samkvæmt mælaborði Mast var dauði eldisfiska talsvert meiri nú en í fyrra. Jón Kaldal segir að stjórnvöld hljóti að grípa í taumana.
Samkvæmt mælaborði Mast var dauði eldisfiska talsvert meiri nú en í fyrra. Jón Kaldal segir að stjórnvöld hljóti að grípa í taumana. vísir/einar

Fyrstu fimm mánuði ársins 2023 drápust um 1,3 milljónir eldislaxa í sjókvíum. Tölurnar eru verri núna. Jón Kaldal hjá Íslenska náttúruverndarsjóðsins segir að stjórnvöld verði að grípa í taumana.

Nýjar tölur yfir „afföll“ dauða eldislaxa voru að koma inn á mælaborð fiskeldis hjá MAST. Maí 2024 er talsvert verri en maí 2023 og fyrstu fimm mánuðir ársins miklu verri en sömu mánuðir 2023.

Fyrstu fimm mánuði ársins 2023 drápust um 1,3 milljónir eldislaxa í sjókvíunum. Talan er rétt tæplega tvær milljónir nú. Það er á við 100-faldur hrygningarstofn íslenska villta laxins.

Jón segir þjáningu og dauða eldislaxanna er bókstaflega hluti af viðskiptamódeli fiskeldisfyrirtækjanna og því sé ekki um annað að ræða en biðla til stjórnvalda.vísir/vilhelm

Jón Kaldal, talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins, sem hefur beitt sér verulega gegn sjókvíaeld, segir að stjórnvöld verði að grípa í taumana og stöðva rekstur fyrirtækja sem fara svona skelfilega með eldisdýrin.

„Við vitum að SFS mun berjast um á hæl og hnakka gegn löggjöf sem tekur fyrir þessa starfshætti því þjáning og dauði eldislaxanna er bókstaflega hluti af viðskiptamódeli sjókvíaeldisfyrirtækjanna. Þau gera ráð fyrir að hátt hlutfall lifi ekki af aðstæðurnar í sjókvíunum,“ segir Jón.

Að sögn Jóns skoruðu stærstu samtök norskra líffræðinga og sérfræðinga á sviði fisksjúkdóma í vor á norsk stjórnvöld skikka norsk sjókvíaeldisfyrirtæki til að koma afföllum undir 5 prósent á ári.

„Fyrirtækin munu ekki bæta ráð sitt sjálfviljug, hvorki hér né í Noregi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×