Neytendur

Senda tækið til út­landa til skoðunar og vilja endur­greiða Steinunni

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Athygli vakti á dögunum þegar Vísir fjallaði um kolsýrutæki sem hafði sprungið í frumeindir sínar og miður skemmtileg samskipti Elko við viðskiptavininn. Óttar Örn Sigurbergsson​​​​ framkvæmdastjóri Elko harmar atvikið.  
Athygli vakti á dögunum þegar Vísir fjallaði um kolsýrutæki sem hafði sprungið í frumeindir sínar og miður skemmtileg samskipti Elko við viðskiptavininn. Óttar Örn Sigurbergsson​​​​ framkvæmdastjóri Elko harmar atvikið.   Vísir

Framkvæmdastjóri Elko segir fyrirtækið líta mál þar sem kolsýrutæki sprakk með þeim afleiðingum að neytandi hlaut skaða á hendi alvarlegum augum. Hann segist hafa ítrekað starfsreglur og sent tækið til útlanda í skoðun hjá sérfræðingum. 

Vísir fjallaði um mál Steinunnar Ólafsdóttur í liðinni viku. Hún varar við notkun kolsýrutækis af gerðinni Aarke sem sprakk í frumeindir sínar eftir að yfirþrýstingur myndaðist þegar hún var að laga kolsýrt vatn. 

Steinunn átti í bréfaskiptum við Elko, sem sagði engin tæki hættulaus. Mestar líkur væru á því að flaskan hafi verið sett skakkt í tækið, eitthvað sem Steinunn kannast ekkert við. Þá hafi fyrirtækið brýnt fyrir henni nauðsyn þess að lesa leiðbeiningar sem fylgja slíkum tækjum rétt. Steinunn sagði málalokin dapurleg. 

Í skriflegu svari til fréttastofu segir Óttar Örn Sigurbergsson framkvæmdastjóri Elko málinu ekki lokið. Enn sé ekki vitað hvað hafi orðið til þess að yfirþrýstingur myndaðist í flöskunni. 

Fyrirtækið hafi verið í sambandi við Steinunni og boðist til að endurgreiða henni tækið og aukahluti. Verið sé að senda tækið til útlanda í skoðun hjá sérfræðingum. 

„Við lítum alltaf alvarlegum augum ef slys verða á fólki eða kemur til tjóns á ytra umhverfi. Í kjölfar þessa slyss þá höfum við uppfært allar vörulýsingar með vísun í færslu á blogg.elko.is þar sem er farið yfir helstu öryggisatriði við notkun á kolsýrutækjum,“ segir í svari Óttars. 

Aðspurður hvort viðbrögð fyrirtækisins hefðu mátt vera öðruvísi í umræddu máli segist hann hafa tekið atvikið og verklag því tengdu til sérstakrar skoðunar og ítrekar starfsreglur komi svona atvik upp aftur. 

„Við höfum beðið umræddan viðskiptavin afsökunar á fyrstu viðbrögðum fyrirtækisins.“

Loks segir í svari Óttars að Elko hafi haft samband við framleiðanda tækisins svo grafast mætti betur fyrir um orsakir slyssins. Í samráði við viðskiptavin muni framleiðandinn hafa samband beint til að rannsaka málið, auk þess sem tækið verði sent í skoðun til útlanda hjá sérfræðingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×