Körfubolti

Maðurinn sem missir ekki úr mínútu skiptir um lið í stóra eplinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skiptir um lið innan New York.
Skiptir um lið innan New York. G Fiume/Getty Images

Mikal Bridges hefur fært sig um set frá Brooklyn Nets til New York Knicks. Bridges hefur ekki misst úr leik síðan hann kom inn í NBA-deildina árið 2018.

Hinn 27 ára gamli Bridges gekk í raðir Nets á síðasta ári þegar hann var notaður sem skiptimynt fyrir Kevin Durant sem fór til Phoenix Suns frá Nets. Eftir aðeins ár í Brooklyn hefur hann fært sig um set innan New York-borgar. Nets fær Bojan Bogdanović og heilan haug af valréttum ef marka má hinn áreiðanlega Adrian Wojnarowski.

Það ætti að vera vel um Bridges hjá Knicks þar sem hann hittir fyrir fjóra fyrrum samherja sína úr Villanova-háskólanum. Bridges, Jalen Brunson, Josh Hart og Donte DiVencenzo urðu landsmeistarar með skólanum árið 2016 og eru í dag leikmenn Knicks. 

Lengi vel hefur verið grínast með það að Tom Thibodeau, þjálfari Knicks, láti leikmenn sína spila alltof margar mínútur og passar Bridges vel inn í þá hugmyndafræði þar sem hann hefur ekki misst úr leik vegna meiðsla á öllum sínum ferli í NBA-deildinni. Þá var hann frábær í annars slöku liði Nets á síðustu leiktíð, skoraði Bridges tæp 20 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka 4,5 fráköst og gefa 3,6 stoðsendingar.

Knicks fór í undanúrslit Austursins á síðustu leiktíð þar sem það tapaði í oddaleik gegn Indiana Pacers. Liðið var án Julius Randle í úrslitakeppninni og það hafði sitt að segja að lokum. Með komu Bridges og mögulegum framlengdum samning OG Anunoby er liðið hins vegar til alls líklegt á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×