Innlent

Sofnaði eftir fjór­tán mínútna akstur og olli banaslysi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Yfirlitsmynd af slysstað.
Yfirlitsmynd af slysstað. Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Erlend kona á ferð um landið lést í alvarlegu umferðarslysi á Snæfellsnesvegi norðan Hítarár þegar þegar annar erlendur ferðamaður sem ók Nissan-bifreið úr gagnstæðri átt sofnaði við akstur, ók yfir á rangan vegahelming og framan á húsbílinn.

Ökumaðurinn sem sofnaði og olli slysinu hafði verið við stýrið í fjórtán mínútur þegar slysið varð. Að eigin sögn hafði hann lítið sofið í aðdraganda slyssins og fann fyrir þreytu. Hann hafi íhugað að fá farþega í framsæti til að taka við akstrinum en vegurinn hafi verið þröngur og hann ekki fundið stað þar sem öruggt væri að stöðva bílinn.

Fékk engar upplýsingar um akstur á Íslandi

Í Fiat-húsbílnum var ökumaður ásamt þremur farþegum. Ökumaðurinn og farþegi í framsæti voru spenntir í öryggisbelti en farþeginn í aftursæti sem lést var ekki spenntur í öryggisbelti. Óvíst er um öryggisbeltanotkun hins farþegans. Farþegi í aftursæti hlaut alvarlega áverka og var fluttur á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar en ökumaður og farþegi í framsæti með sjúkrabíl.

Ekið var framan á fólksbíl af gerðinni Fiat WeinRannsóknarnefnd samgönguslysa

Í Nissan-bílnum var ökumaður ásamt tveimur farþegum. Allir voru spenntir í öryggisbelti. Farþegi í aftursæti hlaut alvarlega áverka og var fluttur á sjúkrahús með þyrlu ásamt farþega í framsæti. Ökumaðurinn slasaðist minna og var fluttur af vettvangi með sjúkrabíl.

Í skýrslu frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa kemur fram að ökumaður Nissan-bifreiðarinnar hafi komið til Íslands með flugi snemma dags fimmtánda júlí 2023, sem sagt tveimur dögum áður en að slysið varð. Að eigin sögn kom enginn starfsmaður að afhendingu bifreiðarinnar og hann kannaðist ekki við að hafa fengið upplýsingar um akstur á Íslandi frá bílaleigunni.

Illa sofinn fyrir aksturinn

Hann hafi sofið lítið á þeim tveimur dögum sem hnan hefði dvalið á Íslandi. Einnig hafi hann unnið mikið og sofið lítið vikuna fyrir Íslandsferðina.

Daginn sem slysið varð hafi ökumaðurinn vaknað um klukkan sex að morgni og hann og samferðarfólk hans lögðu af stað frá Reykjavík um hálf tíu. Ökumaður tók við akstrinum hálf eitt eða um fjórtán mínútum áður en slysið varð.

Nissan-bifreiðin sem ekið var á öfugan vegarhelming með þeim afleiðingum að farþegi húsbíls lést.Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að meginorsök slyssins hafi verið sú að ökumaður Nissan-bifreiðarinnar hafi sofnað við aksturinn, ekið yfir á öfugan vegarhelming og framan á Fiat-húsbílinn. Breidd bundna slitlagsins undir veginum hafi þó einnig verið undir því sem gildandi hönnunarreglur Vegagerðarinnar segja til um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×