Sport

„Við erum fullir sjálfs­trausts“

Sverrir Mar Smárason skrifar
Steinar Þorsteinsson gerði sigurmark ÍA í kvöld.
Steinar Þorsteinsson gerði sigurmark ÍA í kvöld. Visir/ Hulda Margrét

Steinar Þorsteinsson, leikmaður ÍA, gerði heldur betur mikilvægt mark fyrir ÍA þegar hann skoraði þriðja mark liðsins í 3-2 sigri gegn Val á Akranesi í kvöld. Sigurmarkið skoraði Steinar á 90. mínútu leiksins.

„Tilfinningin er helvíti góð eftir erfiða byrjun hjá okkur. Ég er hrikalega sáttur með sigurinn í dag,“ sagði Steinar Þorsteinsson.

Gestirnir í Val byrjuðu betur og skoraði Patrick Pedersen mark á 6. mínútu sem var dæmt af. Valsmenn skoruðu löglegt mark og komust yfir á 14. mínútu en eftir það snérist leikurinn Skagamönnum í vil.

„Ég sá markið hjá Patrick sem rangstöðu þannig ég kallaði það bara strax á dómarann. Ég held þetta hafi verið rétt allavega. Við byrjuðum illa fyrstu tuttugu í fyrri og náðum að koma okkur aðeins aftur inn í þetta. Markið þeirra sjokkeraði okkur aðeins en við fengum betri færi eftir það,“ sagði Steinar.

Valsmenn jöfnuðu leikinn snemma í fyrri hálfleik og aftur snéri ÍA leiknum sér í vil. Það virðist vera einhver óútskýranleg samstaða og seigla í Skagamönnum en hvað er það?

„Það er góð spurning. Við erum búnir að vera að hala inn stigum undanfarið og það hjálpar. Sjálfstraustið kemur með því og við erum fullir sjálfstrausts,“ sagði Steinar að lokum.

Steinar gerði, eins og fyrr segir, sigurmark ÍA á loka mínútu venjulegs leiktíma og það skilar ÍA upp í 20 stig. Skagamenn sitja áfram í 4. sætinu en minnka forskot Vals niður í 5 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×