Sport

Eitt sinn fyrstur í nýliðavali NFL, nú rekinn úr sjálfboðastarfi fyrir fjár­drátt

Ágúst Orri Arnarson skrifar
JaMarcus Russell var mikil stjarna í mennta- og háskóla. Á aðeins þremur árum í NFL deildinni fékk hann greitt 36,4 milljónir dollara.
JaMarcus Russell var mikil stjarna í mennta- og háskóla. Á aðeins þremur árum í NFL deildinni fékk hann greitt 36,4 milljónir dollara. A. Messerschmidt/Getty Images

JaMarcus Russell, fyrrum fyrsta val í nýliðavali NFL deildarinnar, hefur verið rekinn úr sjálfboðastarfi hjá Williamson menntaskólanum í Alabama og kærður fyrir að hirða 74.000 dollara sem skólanum var gefið.

Eftir glæsilegan háskólaferil hjá LSU var Russell valinn fyrstur allra af Oakland Raiders í nýliðavali NFL deildarinnar árið 2007. Tími hans í deildinni reyndist stuttur, aðeins þrjú ár en hann glímdi við mikil vandræði við þyngdarstjórnun.

Russell var handtekinn fyrir að hafa undir höndum kódein án lyfseðils og samningi hans hjá Raiders var sagt upp á miðju sumri árið 2010.

Russell fékk þrjár milljónir dollara frá Raiders í kjölfarið, samtals á ferlinum í deildinni fékk hann 36,4 milljónir dollara í launagreiðslum og bónusum.

Hann reyndi ítrekað að koma sér aftur í NFL deildina en tókst aldrei til. Upp á síðkastið hefur hann boðið fram krafta sína til þjálfunar í gamla menntaskóla sínum, Williamson.

Chris Knowles, viðskiptajöfur á svæðinu, gaf skólanum 74.000 dollara en ávísunin barst aldrei. Talið er að Russell hafi hirt hana til eigin nota.

Honum var sagt upp sjálfboðastörfunum í kjölfarið, þegar hann mætti svo á næsta leik liðsins sem áhorfandi var honum gert að yfirgefa svæðið. Hann hefur nú verið kærður fyrir fjárdrátt.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×