Viðskipti innlent

Minna nú á skoðun öku­tækja á Ísland.is

Lovísa Arnardóttir skrifar
Alla bíla þarf að fara með í skoðun reglulega.
Alla bíla þarf að fara með í skoðun reglulega. Vísir/Vilhelm

Samgöngustofa hefur tengst stafrænu pósthólfi á Ísland.is og nýtir nú pósthólfið til að minna eigendur ökutækja á skoðunartíma ökutækisins. Í tilkynningu frá Samgöngustofu segir að með því að tengjast pósthólfinu voni þau að þeim gefist kostur á aukinni skilvirkni og betri þjónustu við viðskiptavini.

Þar kemur einnig fram að í fyrsta áfanga innleiðingarinnar verði pósthólfið nýtt til að minna fólk á skoðunartíma ökutækja sinna. Fyrsta virka dag fyrsta skoðunarmánaðar ökutækisins verður eiganda ökutækisins, aðaleiganda eða umráðamanni, sendur póstur gegnum Ísland.is um að nú sé komið að skoðun. Tilkynningin er hér. 

Þá fær fólk einnig póst um tveimur vikum áður en vanrækslugjald fellur á. Gjaldið er lagt á eigendur eða umráðamenn ökutækja sem mæta ekki með ökutækin í lögboðna ökutækjaskoðun innan gefins tímafrests.

Vanrækslugjald er 20.000 krónur vegna allra ökutækja nema tiltekinna flokka hópbifreiða, vörubifreiða og eftirvagna en gjald vegna þeirra er 40.000 krónur.

Allir einstaklingar sem fá útgefna kennitölu og allir lögaðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi á Ísland.is. Hægt er að stilla pósthólfið þannig að það sendi hnipp til eiganda þess þegar póstur hefur borist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×