Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að ljóst hafi verið snemma að bera þyrfti viðkomandi frá slysstað vegna aðstæðna.
„Þarna er bratt og algengt að göngufólk slasi sig á þessum slóðum. Yfir úfið hraun er að fara og ljóst að flutningur myndi reyna óþarflega mikið á sjúklinginn.“

Búið hafi verið um hinn slasaða á börum en í hóp Hálendisvaktar séu tveir sjúkraflutningamenn og í gönguhópnum hafi einnig verið læknir.
„Óskað var eftir því við Neyðarlínuna að þyrla yrði boðuð á staðinn til að flytja hinn slasaða af vettvangi.“

„Á meðan þyrla var á leið á vettvang þurfti hins vegar að flytja þann slasaða í börum úr mesta brattlendinu niður á stað sem þyrlan gæti lent. Björgunarfólk setti upp tryggingar og flutti sjúklinginn niður á áreyrar þarna nærri þar sem þyrlan svo lenti, sjúklingur borinn um borð og fluttur til aðhlynningar,“ segir í lok tilkynningar.