Viðskipti innlent

Mikið á­fall fyrir ís­lenskan sjávar­út­veg

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Haraldur Benediktsson bæjarstjóri segir gjaldþrot Skagans 3X mikið áfall fyrir bæinn.
Haraldur Benediktsson bæjarstjóri segir gjaldþrot Skagans 3X mikið áfall fyrir bæinn. Vísir/Vilhelm

Haraldur Benediktsson segir gjaldþrot Skagans 3X sem sagði upp öllum 128 starfsmönnum sínum í morgun vera mikið áfall, ekki bara fyrir bæinn heldur íslenskan sjávarútveg í heild sinni.

Hann segir það liðna tíð að bæjaryfirvöld séu hreyfiafl í að endurreisa gjaldþrota fyrirtæki en að bærinn muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að styðja við iðnað á Skaganum.

„Við erum að ganga í gegnum mikla erfiðleika núna en ég vona að það verði hægt með einhverjum hætti að endurreisa fyrirtækin. Ég held að það skipti máli ekki bara fyrir Akranes fyrir íslenskan sjávarútveg að varðveita þessa þekkingu og þetta hugvit,“ segir Haraldur í samtali við fréttastofu.

Aðspurður segir hann það þó málalyktir ekki hafa komið sér á óvart. Stríð í Úkraínu hafi haft mikil áhrif á rekstur fyrirtækisins sem átti í umfangsmiklum viðskiptum í Rússlandi. Þá hafi faraldur kórónuveirunnar einnig sett strik í reikninginn og raskað aðfangakeðjuna.

„Síðan hafa fyrirtæki haldið að sér höndum sem hafa verið að kaupa þessar vörur og þjónustu af þessum framleiðslugeira. Við vitum að félagið átti góða möguleika á að selja stór verkefni en kaupendur hafa haldið að sér höndum vegna óvissu á heimsmarkaði,“ segir Haraldur.

„Við eigum þetta fólk og það er fyrst og fremst í þessu fólki sem býr á Akranesi og hefur þessa þekkingu sem verðmætin liggja. Það hljóta einhverjir að sjá tækifæri í að fjárfesta í því. Við sem bæjaryfirvöld munum gera hvað sem er til þess að skapa heppilega ramma um það, með hvaða tækjum sem við höfum yfir að ráða til þeirra hluta,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×