Veður

Meðal­hiti lægri í júní en í maí í fyrsta sinn

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Kaupmannahöfn í Danmörku. Mynd úr safni.
Kaupmannahöfn í Danmörku. Mynd úr safni. Getty/Alexander Spatari

Meðalhiti í Bretlandi og Danmörku var lægri í júní heldur en var í maí. Þetta er í fyrsta sinn sem júní er kaldari en maí síðan að mælingar hófust í Danmörku fyrir rúmlega 150 árum samkvæmt fréttastofu DR.

Í Danmörku mældist meðalhiti á landsvísu í maí 14,6 gráður en 14,5 gráður í júní en mælingar hófust þar í landi árið 1871.

Í fyrsta sinn síðan 1833 í Englandi

Trausti Jónsson, veðurfræðingur, greinir frá því á bloggsíðu sinni að á þeim þrjú hundruð árum sem mælingar hafa staðið yfir á Mið-Englandi hefur það aðeins gerst tvisvar að júní mælist kaldari en maí, síðast árið 1833.

„Hérlendis var landsmeðalhiti í júní 1946 lítillega lægri heldur en í maí og eins árið 1928, í báðum tilvikum hafði maí verið óvenjuhlýr. Líklega gerðist þetta líka árið 1851, en þá var mælt á nokkrum stöðvum,“ segir Trausti á blogginu sínu.

Trausti segir að þó að þetta sé sjaldgæft á landsvísu hér á landi sé það samt algengara í einstökum landshlutum. Fyrir sjö árum hafi júní verið kaldari heldur en maí á allmörgum veðurstöðvum en þó ekki á landsvísu.

Landsmeðalhiti hér á landi 1,3 stigi undir meðallagi

„Venjulega er júní talsvert hlýrri heldur en maí. Á landinu í heild munar um 3,2 stigum á meðalhita mánaðanna. Mest hlýnar að jafnaði á Miðhálendinu, um 4,6 stig að meðaltali. Það stafar væntanlega af því að snjór hverfur oftast þaðan seint í maí eða í júní. Hlýindi í maí fara fyrst og fremst í að bræða snjó og tefur það hlýnun. Minnst hlýnar milli mánaðanna á Suðausturlandi og Austfjörðum, um 2,7 stig að meðaltali.

Á þessu ári, 2024, var meðalhiti í júní lægri heldur en í maí á einni veðurstöð, Vatnsskarði eystra. Þar munaði 0,2 stigum. Meðalhiti var sá sami í mánuðunum tveimur í Bjarnarey og í Ásbyrgi. Mest hlýnaði milli mánaða á hálendinu, júní var 3,4 stigum hlýrri en maí í Þúfuveri og 2,9 stigum hlýrri við Setur. Þessi munur er þó undir meðallagi - því sem minnst var á hér að ofan. Munur á landsmeðalhita mánaðanna var 1,3 stig, einnig undir meðallagi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×