Fótbolti

Kanada ó­vænt í undan­úr­slitin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jonathan David er ein af stjörnum kanadíska landsliðsins.
Jonathan David er ein af stjörnum kanadíska landsliðsins. Ron Jenkins/Getty Images

Kanada mun mæta ríkjandi heimsmeisturum í Argentínu í undanúrslitum Suður-Ameríkukeppninnar í knattspyrnu eftir sigur á Venesúela í vítaspyrnukeppni.

Það er ekki aðeins álfukeppni karla í knattspyrnu í Evrópu þessa dagana en Suður-Ameríkukeppnin fer nú fram í Bandaríkjunum. Segja má að um upphitun sé að ræða en heimsmeistaramótið fer fram sumarið 2026 í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

Kanada var nokkuð heppið með mótherja í 8-liða úrslitum en Venesúela er sýnd viði en ekki gefin. Jacob Shaffelburg kom Kanada yfir strax á 13. mínútu og reynist það eina mark fyrri hálfleiks.

Í þeim síðari jafnaði gamla brýnið Salomón Rondón metin en unnendur enska boltans ættu að kannast við kappann. Hann spilaði með West Bromwich Albion, Newcastle United og Everton á sínum tíma en spilar í dag með Pachuca í Mexíkó.

Þar sem ekki var meira skorað var gripið til vítaspyrnukeppni en í Suður-Ameríkukeppninni eru engar framlengingar nema þess þurfi í úrslitaleiknum. Rondón sjálfur skoraði úr fyrsut spyrnu Venesúela en samherjar hans Yangel Herrera, Jefferson Savarino og Wilker Angel misnotuðu spyrnur sínar og Kanada fór því með sigur af hólmi.

Fyrir mót var Kanada ekki talið líklegt til afreka en liðið er nú komið alla leið í undanúrslit. Átta liða úrslitunum lýkur í kvöld og nótt þegar Kólumbía mætir Panama og Úrúgvæ mætir Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×