Erlent

Kröfur Ísrael og Hamas virðast al­gjör­lega ósamræmanlegar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælendur í Tel Aviv kölluðu eftir frelsun gíslanna og afsögn Netanyahu.
Mótmælendur í Tel Aviv kölluðu eftir frelsun gíslanna og afsögn Netanyahu. epa/Abir Sultan

Litlar líkur virðast á vopnahléi á Gasa eftir að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði að mögulegt samkomulag þyrfti að fela í sér að Ísraelsmenn gætu haldið aðgerðum sínum áfram þar til markmiðum þeirra væri náð.

Umrædd markmið snúa flest að algjörri tortímingu Hamas en nýjustu vopnahléstillögur samtakanna fela í sér að milligönguaðilar heiti því að tryggja algjört hlé á átökum.

Hamas hefur fallið frá þeirri kröfu sinni að Ísraelsmenn samþykki varanlegt vopnahlé áður en samkomulag verður undirritað og opnað fyrir viðræður um varanlegt vopnahlé á meðan sex vikna tímabundnu vopnahlé stendur.

Netanyahu segir hins vegar að mögulegt samkomulag verði að fela í sér að Ísraelsmenn geti haldið aðgerðum sínum áfram að loknu tímabundnu vopnahléi og þar til markmiðum hefur verið náð.

Stjórnvöld í Ísrael hafa raunar verið sökuð um tilraunir til að grafa undan mögulegu vopnahléi með því að leggja fram nýjar kröfur og skilmála. David Barnea, yfirmaður Mossad, er þannig sagður hafa ferðast til Katar um helgina, þar sem viðræður standa yfir, og lýst yfir efasemdum við sáttasemjara í deilunni.

Efnt var til mótmæla víða í Ísrael í gær til að þrýsta á stjórnvöld um að grípa til aðgerða til að endurheimta þá gísla sem enn eru í haldi Hamas. Þá er kallað eftir því að boðað verði til kosninga.

Hezbollah samtökin eru sögð hafa skotið 20 eldflaugum að Ísrael um helgina og þá eru fimmtán sagðir hafa látist í árásum Ísrael á Gasa í gær. Ísraelsher segist standa í aðgerðum í Gasa-borg sem byggja á upplýsingum um innviði Hamas í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×