Innlent

Svikahrappar reyna að gabba lög­regluna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Það er hægara sagt en gert að gabba lögregluna.
Það er hægara sagt en gert að gabba lögregluna. Vísir/Samsett

Óprúttinn aðili gerði í dag tilraun til að gabba lögregluna á Suðurnesjum með póstsvindli svokölluðu sem herjað hefur á landsmenn í auknum mæli undanfarin ár.

Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá því í færslu sem hún birti á Facebook í dag að einhver svikastarfsemi sem gaf sig út fyrir að vera Íslandspóstur hafi sent smáskilaboð í lögreglusímann. Þar segir svindlarinn að pakkasending hafi verið stöðvuð vegna þess að húsnúmer vanti á pakkann.

Þetta er sígild tækni netsvindlara þar sem hlekkur er sendur á fórnarlamb sem vísar því á síðu sem látin er líta út fyrir að vera síða hinnar og þessarar opinberu stofnunar. Þar er fórnarlambið svo beðið um að fylla inn persónuupplýsingar eða jafnvel beðið um kortaupplýsingar.

„Það er engin afsláttur gefinn af þessu svindl rugli, sent í löggusímann rétt í þessu. Vonandi eruð þið ekki að falla í þessa gryfju kæru vinir,“ skrifar lögreglan á Suðurnesjum undir myndina af svikatilrauninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×