Erlent

Sjö­tíu og sjö grindhvalir dauðir eftir að hafa strandað á Orkn­eyjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Talið er að hvalirnir hafi verið á ströndinni í nokkurn tíma áður en þeir fundust. Tólf voru enn á lífi.
Talið er að hvalirnir hafi verið á ströndinni í nokkurn tíma áður en þeir fundust. Tólf voru enn á lífi. BDMLR/Emma Neave Webb

Sjötíu og sjö grindhvalir eru dauðir eftir að þeir strönduðu á Orkneyjum. Ekki hafa fleiri hvalir drepist við strendur Skotlands í marga áratugi en 55 grindhvalir drápust við Lewis í fyrra.

Talið er að hvalirnir hafi strandað þegar þeir reyndu að koma einum úr hópnum til bjargar. Tólf voru enn á lífi þegar að var komið en þegar tilraunir til að koma þeim aftur í sjóinn mistókust var ákveðið að fella þá.

Um var að ræða karldýr, kvendýr, unga hvali og kálfa.

Almenningur hefur verið beðinn um að halda sig fjarri á meðan dýrin eru krufin. Þar sem um svo mörg dýr er að ræða verða hræin líklega grafin þar sem þau liggja eða þeim safnað saman og urðuð annars staðar.

Ekki er talið skynsamlegt að láta þau rotna og grotna niður á ströndinni, af heilbrigðisástæðum.

BBC greinir frá því að samkvæmt Natural History Museum hafi stærsta strand við Bretlandseyjar átt sér stað árið 1927 þegar 126 háhyrningsbræður drápust í Dornoch Firth í Hálöndunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×