Fótbolti

Bellingham lík­lega á leið í að­gerð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham finnur vel fyrir axlarmeiðslunum en fari hann í aðgerð missir hann af tveimur fyrstu mánuðum næsta tímabils.
Jude Bellingham finnur vel fyrir axlarmeiðslunum en fari hann í aðgerð missir hann af tveimur fyrstu mánuðum næsta tímabils. Getty/Robbie Jay Barratt

Enski landsliðsmaðurinn Jude Bellingham gengur ekki alveg heill til skógar og hefur ekki gert það síðan í nóvember á síðasta ári.

Bellingham og félagar í enska landsliðinu eru nú aðeins einum leik frá fyrsta stóra titli Englendinga frá árinu 1966 og enska liðið þarf á góðum leik frá honum að halda til að landa titlinum um helgina.

Bellingham hefur glímt við axlarmeiðsli í meira en sex mánuði og spænski miðilinn Relevo segir að hann gæti þurft að fara í aðgerð eftir Evrópumótið.

Bellingham meiddist á öxl í leik á móti Rayo Vallecano 5. nóvember síðastliðinn. Hann hefur spilað í gegnum meiðsli í allan þennan tíma en Relevo segir að hann finni enn vel fyrir þessu.

Real Madrid mun skoða leikmanninn betur eftir úrslitaleik Evrópumótsins á sunnudaginn. Þá verður tekin ákvörðun um aðgerð sem myndi þýða að Bellingham missir af fyrstu tveimur mánuðum næsta tímabils.

Á sínu fyrsta tímabili með Real Madrid þá vann Bellingham Meistaradeildina og spænsku deildina með Real Madrid. Hinn 21 árs gamli Bellingham var með 23 mörk og 13 stoðsendingar á tímabilinu.

Hann gæti síðan bætt Evrópumeistaratitli við um helgina og væri þá örugglega búinn að taka forystuna í keppninni um næsta Gullhnött, Ballon d'Or.

Bellingham missti af tveimur leikjum vegna meiðslanna. Hann var þá kominn með 14 mörk og 4 stoðsendingar í fyrstu þrettán leikjunum í deild og Meistaradeild. Eftir meiðslin þá bætti hann „bara“ við 10 mörkum og 8 stoðsendingum í 26 leikjum í deild og Meistaradeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×