Erlent

Um­fangs­mikil á­rás á Gasa talin hafa banað minnst 71

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Al Mawasi svæðið er í miklum rústum eftir árásina.
Al Mawasi svæðið er í miklum rústum eftir árásina. EPA

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem rekin eru af Hamas segja að minnst 71 hafi verið drepinn í umfangsmikilli árás Ísraelshers á svæði sem átti að vera öruggt mannúðarsvæði. Ísraelsher segir að skotmörk árásarinnar hafi verið háttsettir leiðtogar Hamas.

Hamas segir að árásin hafi verið gerð að al-Mawasi svæðinu nálægt Khan Younis, sem Ísraelsher hafði markað sem öruggt svæði, og hvatt Palestínumenn til að leita þar skjóls. Heilbrigðisyfirvöld segja að minnsta kosti 289 hafi hlotið áverka.

Talsmaður Ísraels segir að árásin hafi beinst að höfuðpaur hernaðardeildar Hamas, Mohammed Deif, og Rafa Salama, forsprakka Hamas í Khan Younis. Árásin hafi verið að opnu svæði þar sem eingöngu væru vígamenn Hamas og engir óbreyttir borgarar.

Mohammed Dief er talinn hafa verið einn helsti maðurinn á bak við hryðjuverkin í Ísrael þann 7. október síðastliðinn. Hann hefur verið lengi verið efstur á lista eftirlýstra hjá Ísrael, en hann er talinn hafa sloppið undan ótalmörgum morðtilraunum Ísraelshers.

Staðan á Nasser spítalanum í dag.EPA

Ekki liggur fyrir hvort hann hafi verið drepinn, en forsvarsmenn Ísraelshers segja að enn sé verið að skoða árangur árásarinnar.

Hamas hafa andmælt því að árásinni hafi verið beint að leiðtogum þeirra. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ísrael segir að takmarkið hafi verið vígamenn, sem reynist svo vera haugalygi,“ segir í tilkynningu Hamas.

Mohammed Abu Rayya, læknir á svæðinu, segir við BBC að dagurinn sé „einn af þessum svörtu dögum.“ Hann segir að flestir sem komi á spítalann séu þegar látnir, en aðrir hafi mikla áverka. Mörg fórnarlambanna séu óbreyttir borgarar, mörg börn og konur séu á spítalanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×