Erlent

Segir Guð hafa bjargað sér

Jón Þór Stefánsson skrifar
Donald Trump skömmu eftir árásina í gær.
Donald Trump skömmu eftir árásina í gær. Getty

Donald Trump hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar skotárásar sem beindist gagnvart honum í kosningafundi í Pennsylvaníu í gær. Hann segir Guð hafa bjargað sér.

„Takk öllsömul fyrir hlýhug og bænir í gær. Það var Guð sem kom í veg fyrir að óhugsanlegur atburður átti sér stað. Við munum ekki óttast, heldur haldast óbugandi í trú okkar og ögrandi í augum hins syndsamlega,“ segir Donald Trump í yfirlýsingu á samfélagsmiðli sínum Truth Social.

Trump segir hug sinn vera hjá öðrum fórnarlömbum árásarinnar og fjölskyldum þeirra. Einn lést og tveir slösuðust alvarlega. Sjálfur fékk Trump skot í eyrað.

„Á þessum tímapunkti er mikilvægata en nokkru sinni fyrr að við stöndum sameinuð og sýnum rétta andlit Bandaríkjamanna. Við höldum áfram að vera sterk og ákveðin og leyfum illskunni ekki að sigra.“

Trump sagðist hlakka til að ávarpa þjóðina í vikunni frá Wisconsin-ríki, en þar mun ársfundur Repúblikanaflokksins fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×