Lögreglan í Miami handtók feðgana eftir úrslitaleikinn þar sem Kólumbía tapaði fyrir Argentínu, 1-0, eftir framlengingu. Þeir eru sakaðir um að hafa ráðist á öryggisverði.
Mikil ólæti voru fyrir úrslitaleikinn sem hófst áttatíu mínútum seinna en áætlað var. Miðalausir áhorfendur brutu sér leið inn á Hard Rock leikvanginn í Miami.
Eftir leikinn reyndu Jesurún-feðgarnir að komast inn á völlinn til að taka þátt í verðlaunaathöfninni.
Öryggisverðir heftu för þeirra þeim til mikils ama. Einn öryggisvarðanna setti lófann á bringu sonarins til að stöðva hann og faðirinn brást ókvæða við og ýtti verðinum. Sonurinn tók í háls hans, dró hann niður í jörðina, kýldi hann og sparkaði í höfuð hans. Sonurinn réðist einnig á annan öryggisvörð.
Jesurún-feðgarnir hafa ekkert tjáð sig um atvikið og ekkert hefur heyrst frá kólumbíska knattspyrnusambandinu.