„Við erum vansvefta síðan í gærmorgun,“ segir Helga Lind í samtali við fréttastofu. Fréttamaður náði tali af þeim þegar þær voru á leið inn í rútu sem átti að skutla þeim á Hotel Cabin. „Það eru rúmlega þrettán tímar síðan við mættum upp á flugvöll og við erum á leið aftur til Reykjavíkur.“
Hringsóluðu yfir Færeyjum
Hún útskýrir að í gær hafi þær vinkonur tekið þá skyndiákvörðun að fara til Færeyja á G! tónlistarhátíðina. Þær hafi bókað flug áætlað klukkan hálf níu í morgun og mætt með rútunni á Keflavíkurflugvöll klukkan korter yfir sex í morgun. „Við erum að keyra inn í stæðið þegar við fáum sms um að fluginu hafi verið seinkað um tvo tíma,“ segir Helga Lind.
Loksins hafi þær fengið upplýsingar um brottfararhlið og þá hafi hlutirnir gerst hratt. Þær hafi verið kallaðar upp og þurft að flýta sér að hliðinu. Þegar í flugvélina var komið hafi þær haldið að næsti áfangastaður væru Vágar en allt kom fyrir ekki.
„Við fengum að fara í rússíbanaferð yfir Færeyjar,“ segir Helga. Í Instagram sögu sinni sýnir hún myndband af ferð flugvélarinnar yfir Færeyjar, og það má með sanni segja að ferðin hafi svipað til rússíbanareiðar.
Til í grínið
Vinkonunum og hinum farþegum flugferðarinnar var snúið við til Keflavíkur vegna mikillar þoku, að sögn Helgu. Hún og Júlíanna fengu þær fréttir að þeim yrði komið fyrir á hóteli og önnur tilraun til þess að komast til Færeyja gerð á morgun.
„Við eigum flug klukkan ellefu í fyrramálið. Þá ætlum við að gera aðra tilraun,“ segir Helga Lind.
Og eruð þið vongóðar?
„Við erum bara til í grínið. Þannig að ef okkur verður snúið við aftur verður þetta enn betri saga,“ segir hún og hlær. Þær séu búnar að hlæja viðstöðulaust síðan þær lögðu af stað upp á Keflavíkurflugvöll.
Helga Lind segist sjá eftir að fá ekki að gista á Hótel Keflavík, eins og lagt var upp með áður en þær komust að því að öll hótelherbergin væru uppbókuð. „Við sáum fyrir okkur að við gætum verið þar á hótelbarnum að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast nýrri menningu. Ég hef aldrei verið á miðvikudegi í júlí í Keflavík,“ segir Helga Lind.