Erlent

Ó­eirðir brutust út í Leeds þegar flytja átti börn í fóstur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Óeirðirnar stóðu yfir inn í nóttina og ummerkin blöstu við í morgunsárið.
Óeirðirnar stóðu yfir inn í nóttina og ummerkin blöstu við í morgunsárið. AP/Katie Dickinson

Óeirðir brutust út í Harehills í Leeds á Englandi í gær eftir að yfirvöld komu og sóttu börn sem flytja átti í fóstur. Lögreglubifreið var meðal annars velt á hliðina og kveikt í strætisvagni.

Íbúum í nágrenninu var sagt að halda sig heima.

Samkvæmt lögreglu barst tilkynning um yfirstandandi atvik um klukkan 17 í gær, þar sem starfsmenn á vegum yfirvalda og börn komu við sögu. Fólk dreif að og var starfsfólkinu og börnunum komið í skjól.

Ef marka má frásagnir á samfélagsmiðlum var verið að sækja nokkur börn og flytja af heimili þeirra eftir að enn annað barn var flutt á sjúkrahús með höfuðáverka. Um er að ræða Rómafólk og hafa yfirvöld verið sökuð um rasisma í tengslum við afgreiðslu málsins.

Fleiri lögreglumenn voru sendir á vettvang en vitni lýsa því hvernig ráðist var á bifreiðar sem voru aðeins að reyna að komast framhjá mannfjöldanum. Ökumaður strætisvagnsins var meðal þeirra sem áttu leið hjá en hann sá sér ekki annað fært en að yfirgefa vagninn eftir að kastað var í hann.

Kveikt var í strætisvagninum þegar hiti færðist í leikinn og náðu logarnir yfir húsþökin í nágrenninu. Þykkan svartan reyk lagði frá svæðinu og sást hann í margra kílómetra fjarlægð. Eldur logaði í rútunni í nokkrar klukkustundir en íbúar reyndu að slökkva hann með vatni úr húsum sínum.

Samkvæmt Guardian hefur myndskeiðum verið deilt þar sem fólk kastar hlutum í lögreglubifreiðina áður en henni var velt á hliðina. Þá loguðu eldar úti á götu og varð þeim haldið við með lauslegum hlutum í nágrenninu.

Innanríkisráðherrann Yvette Cooper hefur fordæmt uppákomuna en sitt sýnist hverjum á samfélagsmiðlum. Hefur lögreglan meðal annars verið fordæmd fyrir að halda sig fjarri eftir að óeirðirnar brutust út og þá hafa yfirvöld og lögregla, eins og fyrr segir, verið sökuð um rasisma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×