Erlent

Bretar hefja aftur greiðslur til UNRWA

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Linnulausar árásir hafa brotið niður innviði og samfélagið á Gasa, þar sem fjöldi fólks berst við að eiga í sig og á.
Linnulausar árásir hafa brotið niður innviði og samfélagið á Gasa, þar sem fjöldi fólks berst við að eiga í sig og á. AP/Abdel Kareem Hana

Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja aftur greiðslu fjárframlaga til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). 

Utanríkisráðherrann David Lammy greindi frá þessu á þinginu í dag og sagðist fullviss um að stofnunin hefði tekið skref til að tryggja fullkomið hlutleysi. Sagði hann framlag Breta munu nema 21 milljón punda.

Nokkur ríki tilkynntu að þau myndu frysta tímabundið greiðslur til UNRWA eftir áskanir Ísraels þess efnis að um tugur starfsmanna stofnunarinnar hefðu átt aðild að árásum Hamas á byggðir Ísraelsmanna þann 7. október síðastliðinn.

Bandaríkin eru nú eina ríkið sem situr enn á hliðarlínunni.

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að stjórnleysi ríki nú á Gasa, þar sem búið sé að rústa öllum innviðum sem héldu samfélaginu og daglegu lífi í skorðum. Lögregla og hjálparstarfsmenn hafi verið myrtir og hjálpargögnum rænt.

Jeremy Laurence, talsmaður Mannréttindaskrifstofu SÞ, segir ástandið fyrirsjáanlega hafa leitt til hnignunar, þar sem menn berjist við hvorn annan til að halda lífi og samfélögum sé sundrað.

Þá hefur verið greint frá því að veiran sem veldur mænusótt hafi greinst í frárennslisvatni á Gasa og þúsundir eigi hættu á að smitast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×