Körfubolti

„Sorgar­dagur þegar eig­endurnir velja peningana fram yfir að­dá­endurna“

Siggeir Ævarsson skrifar
Þeir félagar Shaquille O'Neal, Ernie Johnson Jr., Kenny Smith, og Charles Barkley á góðri stundu.
Þeir félagar Shaquille O'Neal, Ernie Johnson Jr., Kenny Smith, og Charles Barkley á góðri stundu. vísir/Getty

Charles Barkley, einn af fjórmenningunum í Insinde the NBA teyminu á TNT sjónvarpsstöðinni, hefur sent frá sér yfirlýsingu um yfirtöku Disney, NBC og Amazon Prime Video á sjónvarpssamningum NBA deildarinnar.

Barkley hefur látið vel í sér heyra um málið og einnig gagnrýnt stjórnendur TNT fyrir að landa ekki nýjum samningum og kallað þá trúða. Hann sparaði heldur ekki stóru orðin í garð stjórnenda NBA deildarinnar í yfirlýsingunni.

„Það er augljóst að NBA deildin vildi hætta samstarfinu frá upphafi. Ég efast um að TNT hafi nokkurn tímann átt möguleika. Stöðin jafnaði upphæðina en deildin veit að Amazon og þessi tæknifyrirtæki eru þau einu sem eru tilbúin að borga fyrir sjónvarsréttinn þegar verðið tvöfaldast í framtíðinni. NBA deildin vildi ekki styggja þau.

Það er sorgardagur þegar eigendurnir og stjórnendur velja peningana fram yfir aðdáendurna. Það sökkar einfaldlega.“

Barkley endaði yfirlýsinguna á að þakka samstarfsfólki sínu á stöðinni fyrir samstarfið og miðað við lokaorðin þá verður næsta ár, sem verður síðasta árið sem TNT sýnir frá NBA, eitthvað til að fylgjast með.

„Ég vil bara þakka öllum sem hafa starfað hjá Turner síðustu 24 ár. Þetta er frábært og hæfileikaríkt fólk og þau eiga betra skilið. Ég vil líka þakka NBA deildinni og aðdáendum hennar - bestu aðdáendum í íþróttum. Við munum gefa ykkur allt sem við eigum næsta tímabil.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×