Sport

Ó­borgan­leg stund þegar Ólympíu­meistarinn hitti hetjuna sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michaela Blyde með átrúnaðargoðinu sínu Shelly-Ann Fraser-Pryce. Þær hittust í fyrsta sinn í Ólympíuþorpinu.
Michaela Blyde með átrúnaðargoðinu sínu Shelly-Ann Fraser-Pryce. Þær hittust í fyrsta sinn í Ólympíuþorpinu. @michaelablyde

Það eiga allir sín átrúnaðargoð. Líka þeir sem eru kannski í hópi þeirra bestu í heimi í sinni eigin íþrótt.

Michaela Blyde er Ólympíumeistari og stjarna í sinni í íþrótt. Hún var þó aðeins og lítill krakki á jólunum þegar hún komst í samband við uppáhalds íþróttakonu sína í Ólympíuþorpinu í París.

Blyde varð Ólympíumeistari með ný-sjálenska landsliðinu í sjö manna rugby á leikunum i Tókýó fyrir þremur árum siðan þar sem hún skoraði sjálf í úrslitaleiknum. Hún og félagar hennar eru mættar til leiks í titilvörnina.

Liðsfélagar Blyde tóku upp og birtu myndbönd af henni þegar hún sá að jamaíska spretthlaupsstjarnan Shelly-Ann Fraser-Pryce var mætt á leikana.

Fyrst þegar Blyde sá hana í matsalnum, svo þegar Fraser-Pryce hafði samband á samfélagsmiðlum og svo þegar þær hittust loksins í Ólympíuþorpinu.

Michaela Blyde er stórt nafn í rugby heiminum enda var hún tvisvar sinnum kosin besti leikmaður heims. Nú er hún fyrirliði landsliðsins.

Shelly-Ann Fraser-Pryce hefur unnið átta verðlaun á Ólympíuleikum, þar af þrenn gullverðlaun auk þess að vinna sextán verðlaun og tíu gullverðlaun á heimsmeistaramótum.

Það er fyndið að sjá viðbrögðin hjá Blyde og gleðina þegar hún hitti loksins átrúnaðargoðið sitt. Myndböndin má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×