Innlent

„Virðist vera partur af því að reka verslun á Ís­landi í dag“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Eiganda King Kong þykir líklegt að þjófurinn hafi skorið sig við að klöngrast inn um gluggann. 
Eiganda King Kong þykir líklegt að þjófurinn hafi skorið sig við að klöngrast inn um gluggann. 

Eigandi verslunarinnar King Kong segir svo virðast sem innbrot séu fastur liður í því að reka söluturn á Íslandi í dag. Brotist var inn í King Kong við Auðbrekku í Kópavogi í nótt, rúmum sjö mánuðum eftir að brotist var inn í samnefnda verslun við Höfðabakka. 

„Ég fékk í rauninni tilkynningu í símann um að þjófavarnarkerfið væri farið í gang og kíkti síðan nánar á það og sá að einhver var að skríða inn um hana,“ segir Jón Þór Ágústsson eigandi King Kong í samtali við Vísi. DV greindi fyrst frá. 

Á myndbandsupptöku úr öryggismyndavél má sjá þjófinn brjóta rúðu á hurðinni sem leiðir inn í verslunina og stökkva í gegn um gatið. „Hann hefur örugglega skorið sig við að hoppa yfir þessa brotnu rúðu. En við sáum samt ekkert blóð, sem var furðulegt,“ segir Jón Þór. 

Hann segir þjófinn hafa stolið peningakassanum úr afgreiðsluborðinu. Lögregla hafi verið kölluð til um leið og ljóst var hvað væri á seyði og handtekið manninn á staðnum. 

Jóni Þór þykir ólíklegt að innbrotið hafi verið skipulagt, maðurinn hafi verið einn á ferð og ekki valdið nærri jafn miklu tjóni og þegar brotist var inn í King Kong verslunina við Höfðabakka aðfaranótt Þorláksmessu í fyrra, þegar tveir þjófar tæmdu hillur verslunarinnar, sem hlaðnar voru rafrettum. Myndband af því innbroti má sjá hér að neðan. 

Tjón innbrotsins í nótt hafi þó velt á nokkur hundruð þúsund krónum. 

„Þetta er svolítið pirrandi, og virðist eiginlega vera partur af því að reka verslun á Íslandi í dag. Það er mikið um svona rugl,“ segir Jón Þór. 


Tengdar fréttir

Tæmdu hillur King Kong á níutíu sekúndum

Brotist var inn í verslunina King Kong á Höfðabakka í nótt, þar sem þjófar tæmdu hillur vape verslunarinnar ofan í töskur og hlupu síðan á brott. Eigandi verslunarinnar segir tjónið töluvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×