Innlent

„Ekki við hæfi“ að dóms­mála­ráð­herra tjái sig um mál Helga

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra mun ekki tjá sig um mál Helga Magnúsar meðan á málsmeðferð stendur. 
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra mun ekki tjá sig um mál Helga Magnúsar meðan á málsmeðferð stendur.  Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðherra telur ekki við hæfi að hún tjái sig um erindi ríkissaksóknara varðandi tímabundna lausn Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara meðan á málsmeðferð stendur. 

Í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins kemur fram að ráðuneytinu hafi borist erindi frá Sigríði J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara varðandi mál Helga. 

Sigríður lagði í gær til við Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari yrði leystur tímabundið frá störfum vegna kæru á hendur honum fyrir ummæli um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum.

Í tilkynningunni segir að ríkissaksóknari vísi málefnum tengdum tjáningu vararíkissaksóknara til dómsmálaráðherra þar sem dómsmálaráðherra sé það stjórnvald sem skipaði hann í embætti vararíkissaksóknara.

„Þar sem hér er um að ræða starfsmannamál hjá embætti æðsta handhafa ákæruvalds í landinu og erindið er til athugunar hjá dómsmálaráðuneytinu, er ekki við hæfi að ráðherra eða starfsmenn ráðuneytisins tjái sig um málið á meðan á málsmeðferð stendur,“ segir í tilkynningunni. Fleira kemur ekki fram. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×