Fótbolti

Átta þúsund Skotar reyna að brjóta Vals­menn niður

Aron Guðmundsson skrifar
Frá fyrri leik Vals og St. Mirren hér í Reykjavík fyrir viku síðan
Frá fyrri leik Vals og St. Mirren hér í Reykjavík fyrir viku síðan Vísir/Getty

Valur á leik í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu á morgun þar sem að liðið mætir skoska úrvalsdeildarfélaginu St. Mirren í seinni leik liðanna í annarri umferð. Uppselt er á leikinn. 

Það er St. Mirren sem greindi frá því núna í hádeginu að allir miðarnir á SMiSA leikvanginn, heimavöll St. Mirren, fyrir leik liðsins gegn Val annað kvöld hefðu selst. Leikar standa 0-0 eftir markalausan fyrri leik liðanna hér heima. 

SMiSA leikvangurinn tekur um átta þúsund manns í sæti og verður mikill meirihluti áhorfenda á bandi heimamanna. Búist er við því að nokkrir tugir stuðningsmanna Vals verði á leiknum. 

Skotarnir láta vel í sér heyra, líkt og Reykvíkingar fengu að upplifa í kringum fyrri leik liðanna hér heima í síðustu viku, og er um mikilvæga stund að ræða fyrir St. Mirren enda í fyrsta sinn í rúm 37 ár sem liðið á heimaleik í Evrópukeppni. 

Seinni leikur St. Mirren og Vals í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport annað kvöld og hefst klukkan korter í sjö.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×