KR tilkynnti í dag að Pálmi Rafn myndi taka við starfi framkvæmdastjóra af Bjarna Guðjónssyni í haust. Pálmi Rafn mun samhliða því hætta sem þjálfari karlaliðs félagsins í fótbolta sem hann stýrir út tímabilið, með Óskar Hrafn Þorvaldsson sér til halds og trausts.
Framkvæmdastjórastarfið verður sjötta starfið sem Pálmi Rafn tekur að sér í Vesturbænum á rúmu einu ári. Á síðasta ári var hann íþróttafulltrúi félagsins, starf sem hann tók við árið 2022.
Í lok júlímánaðar í fyrra tók Pálmi Rafn svo að sér starf aðalþjálfara hjá kvennaliði KR eftir brottreksur Bretans Perry McLachlan. Hann sinnti því starfi samhliða íþróttafulltrúastarfinu.
Eftir leiktíðina síðustu tók Pálmi Rafn við starfi yfirþjálfara hjá knattspyrnudeild og færðist svo úr aðalþjálfarastarfi kvennaliðsins til að verða aðstoðarþjálfari Greggs Ryder hjá körlunum, samhliða yfirþjálfarastarfinu. Íunn Eir Gunnarsdóttir tók við starfi íþróttafulltrúa af Pálma í janúar.
Pálmi Rafn fékk svo stöðuhækkun úr aðstoðarþjálfarastarfinu og tók við þjálfun karlaliðsins af Gregg Ryder 30. júní síðastliðinn.
Eftir að hafa verið íþróttastjóri, yfirþjálfari, aðalþjálfari kvenna, aðstoðarþjálfari karla og nú aðalþjálfari karla verður framkvæmdastjórastarfið hans sjötta hjá KR á rúmu ári þegar Pálmi Rafn tekur við því í haust.
Fjórir starfstitlar Óskars á örfáum mánuðum
Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur nú verið ráðinn í þjálfarateymi félagsins en það er þriðji starfstitill hans hjá KR á örfáum mánuðum.
Óskar var ráðinn sem faglegur ráðgjafi knattspyrnudeildar þann 10. júní síðastliðinn en tæpum mánuði síðar, 3. júlí var hann ráðinn sem yfirmaður knattspyrnumála.
Samhliða því verður hann meðlimur í þjálfarateyminu út þessa leiktíð, sem aðstoðarþjálfari. Að leiktíðinni lokinni fær hann sinn fjórða starfstitil er hann tekur við sem aðalþjálfari karlaliðsins.