Sigurmarkið var skrautlegt mark í uppbótatíma leiksins og þökk þessum þremur stigum þá eru Eyjamenn nú bara fjórum stigum á eftir toppliði Fjölnis. Oliver Heiðarsson var hetja dagsins með tvö mörk og fær örugglega góðar móttökur í Herjólfsdalnum í kvöld.
Leikurinn fór fram á Hásteinsvellinum í Vestmannaeyjum en líkt og síðustu ár þá spila Eyjamenn heimaleik á Þjóðhátíð í Eyjum.
Eyjamenn lentu samt undir í leiknum í dag og voru undir í 55 mínútur. Þeir náðu hins vegar að tryggja sér sigur með tveimur mörkum frá Oliver undir lokin.
Færeyingurinn Kaj Leo í Bartalsstovu kom gestunum úr Njarðvík yfir á móti sínum gömlu félögum. Hann skoraði markið með laglegu langskot á 24. mínútu leiksins.
Þannig var staðan þar til að Oliver Heiðarsson jafnaði metin ellefu mínútum fyrir leikslok með skalla eftir hornspyrnu.
Oliver var síðan aftur á ferðinni á þriðju mínútu í uppbótatíma. Aron Snær Friðriksson markvörður Njarðvíkur, átti þá hræðilegt útspark og Oliver skoraði með viðstöðulausu skoti frá miðju.
Oliver var að skora sitt níunda og tíunda deildarmark á tímabilinu og er hann nú markahæstur í deildinni ásamt Mána Austmann Hilmarssyni í Fjölni sem er einnig með tíu mörk.
Njarðvíkingar hefðu tekið annað sætið af ÍBV með sigri en Eyjamenn eru nú þremur stigum á undan Njarðvík og fjórum stigum á eftir toppliði Fjölnis.