Sport

Norð­menn fengu gullið í tug­þraut í fyrsta sinn í 104 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Markus Rooth fagnar hér sigri í tugþrautinni á Stade de France í kvöld.
Markus Rooth fagnar hér sigri í tugþrautinni á Stade de France í kvöld. Getty/Cameron Spencer

Norðmaðurinn Markus Rooth varð í kvöld Ólympíumeistari í tugþraut karla á Ólympíuleikunum í París.

Þjóðverjinn Leo Neugebauer fékk silfur og bronsið fór til Lindon Victor frá Grenada.

Þetta eru fyrstu gullverðlaunin og fyrstu verðlaunin sem Norðmenn vinna á þessum leikum en þau gæti orðið fleiri í frjálsum íþróttum.

Rooth endaði með 8796 stig og setti nýtt norskt met. Hann fékk yfir þúsund stig í tveimur greinum (langstökk, stangarstökk) og yfir níu hundruð stig í þremur greinum til viðbótar (100 metra hlaup, 400 metra hlaup, 110 metra grindahlaup).

Rooth var í sjötta sætinu eftir fyrstu sjö greinarnar en hækkaði sig um fjögur sæti með því að fá 1004 stig fyrir stangarstökkið þar sem hann fór yfir 5,30 metra. Hann komst síðan í efsta sætið með því að ná í 842 stig í spjótkasti og hélt því síðan eftir 1500 metra hlaupið.

Neugebauer var í forystu stærstan hluta keppninnar en sá á eftir gullverðlaunum í síðustu greinunum.

Rooth er aðeins 22 ára gamall og á því framtíðina fyrir sér. Hann varð fyrsti Norðmaðurinn í 104 ár til að vinna tugþraut á Ólympíuleikunum eða síðan að Helge Andreas Løvland vann gullið á Ólympíuleikunum í Antwerpen 1920.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×