Menning

Snæ­björn nýr leik­hús­stjóri í Tjarnar­bíói

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Snæbjörn Brynjarsson tekur við stjórnartaumunum í Tjarnarbíói.
Snæbjörn Brynjarsson tekur við stjórnartaumunum í Tjarnarbíói. Tjarnarbíó

Snæbjörn Brynjarsson safnstjóri og leikhúsgagnrýnandi hefur verið ráðinn nýr leikhússtjóri í Tjarnarbíói. Hann tekur við starfinu af Söru Martí Guðmundsdóttur sem hefur gegnt hlutverkinu undanfarin tvö ár.

Fram kemur í tilkynningu frá Tjarnarbíói að Snæbjörn eigi fjölbreyttan starfsferil að baki. Meðal annars sem leikari með franska leikhópnum Vivarium Studio og leikhússins Nanterre Amandiers, sem rithöfundur og blaðamaður. 

Frá 2015 til 2021 var hann leikhúsgagnrýnandi fyrir RÚV í sjónvarpi og á Rás eitt. 

„Það má því segja að hann sé sönnun þess að ekki sé öll von úti fyrir gagnrýnendur um endurkomu aftur inn í sviðslistasenuna,“ segir í tilkynningunni. 

Árið 2018 stofnaði hann menningarrýmið Midpunkt í Hamraborg og í kjölfarið á því listahátíðina Hamraborg Festival. Hann hefur verið einn af listrænum stjórnendum hennar síðan 2021 þegar fyrsta hátíðin fór fram. 

Síðastliðin þrjú ár hefur hann verið safnstjóri Listasafns Svavars Guðnasonar sem staðsett er á Höfn í Hornafirði. Það safn er tileinkað fyrsta abstrakt listmálara Íslendinga og sýnir fjölbreytta samtímalist allan ársins hring.

Sara Martí lætur af störfum í ágúst. Fram kemur í tilkynningunni að síðasta ár hafi verið það aðsóknarmesta í sögu Tjarnarbíós síðan leikhúsið var opnað árið 2013. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.