Fótbolti

Fyrsti sigur Dal­víkur/Reynis síðan í fyrstu um­ferð

Siggeir Ævarsson skrifar
Leikmenn Dalvíkur/Reynis fögnuðu því að komast upp í 1. deild í fyrra en hafa ekki haft margar ástæður til að fagna í sumar
Leikmenn Dalvíkur/Reynis fögnuðu því að komast upp í 1. deild í fyrra en hafa ekki haft margar ástæður til að fagna í sumar sævar geir sigurjónsson

Dalvík/Reynir opnaði fallbaráttuna í Lengjudeildinni upp á gátt í dag þegar liðið lagði Gróttu á útivelli 2-3 en þetta var aðeins annar sigur liðsins í sumar og sá fyrsti síðan í fyrstu umferð.

Leikurinn í dag var ansi fjörugur en Freyr Jónsson kom gestunum yfir á 20. mínútu. Gabríel Hrannar Eyjólfsson jafnaði skömmu síðar en Hassan Jalloh kom norðanmönnum yfir aftur áður en flautað var til hálfleiks.

Áki Sölvason kom gestunum svo í 1-3 í upphafi síðari hálfleiks og heimamenn komnir í brekku sem þeir náðu einfaldlega ekki að spóla sig upp úr, þrátt fyrir að Pétur Theódór Árnason hafi minnkað muninn í eitt mark á 59. mínútu.

Gestirnir héldu út og lönduðu eins og áður sagði sínum fyrsta sigri síðan 4. maí. Síðan þá hefur liðið gert sjö jafntefli og tapað sjö leikjum en með sigrinum eru Dalvík/Reynir og Grótta jöfn að stigum í fallsætum deildarinnar, bæði lið með 13 stig, þremur stigum á eftir Leikni og fjórum á eftir Grindavík og Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×