Sport

Fánaberinn með móts­met í Kópa­vogi

Sindri Sverrisson skrifar
Erna Sóley Gunnarsdóttir keppti á Ólympíuleikunum í París fyrir níu dögum, og varð í 20. sæti.
Erna Sóley Gunnarsdóttir keppti á Ólympíuleikunum í París fyrir níu dögum, og varð í 20. sæti. Getty/Christian Petersen

Nokkrum dögum eftir að hafa verið fánaberi Íslands á lokahátíð Ólympíuleikanna í París var Erna Sóley Gunnarsdóttir mætt til að keppa fyrir hönd ÍR í Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands í dag.

Erna varð á dögunum fyrsta íslenska konan til þess að keppa í kúluvarpi á Ólympíuleikum, og endaði í 20. sæti fyrir framan fullar stúkur á hinum glæsilega Stade de France. Þar kastaði hún lengst 17,39 metra.

Í blíðviðrinu á Kópavogsvelli í dag vann Erna svo öruggan sigur en hún átti þó aðeins tvö gild köst og var lengra kastið 16,66 metrar, sem mun vera mótsmet. Það var rúmum þremur metrum lengra en hjá Irmu Gunnarsdóttur úr FH sem varð í 2. sæti.

Alls keppa átta liðl í Bikarkeppninni í ár en þar af eru tvö lið frá FH. Keppni stendur yfir fram eftir degi en lokagreinarnar eru 1.000 metra boðhlaup karla og kvenna, klukkan 15:30 og 15:40. Hægt er að fylgjast með gangi mála í mótaforriti FRÍ.

Í Bikarkeppninni safna keppendur stigum eftir því hvaða sæti þeir ná í hverri grein. FH-ingar unnu þrefalt í fyrra, það er að segja stigakeppni karla, kvenna og heildarstigakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×