Lífið

Frægir kynnar á ráð­stefnu Demó­krata

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mindy Kaling, Kerry Washington, Tony Goldwyn verða öll kynnar á ráðstefnu Demókrataflokksins.
Mindy Kaling, Kerry Washington, Tony Goldwyn verða öll kynnar á ráðstefnu Demókrataflokksins. Vísir/EPA

Kerry Washington, Tony Goldwyn, Mindy Kaling og Ana Navarro verða kynnar á ráðstefnu Demókrataflokksins sem hefst í Chicago í Illinois á morgun. Ráðstefnan stendur alla vikuna og mun hvert þeirra vera kynnir eina kvöldstund.

Á vef bandaríska miðilsins CNN segir að hlutverk þeirra sé að miklu leyti eins og kynnis á verðlaunaafhendingu. Þau muni eiga nokkra innkomur þann dag sem þau eru kynnar og leiða áhorfendur í gegnum dagskrána þann daginn.

Í frétt CNN segir að öll eigi þau það sameiginlegt að hafa opinberlega lýst yfir stuðningi við flokkinn og að hafa opinberlega stutt frambjóðendur flokksins.

Goldwyn verður annað kvöld, Navarro á þriðjudagskvöldið, Kaling á miðvikudaginn og Washington á fimmtudaginn. Á fimmtudaginn tekur Kamala Harris formlega við tilnefningu flokksins sem forsetaframbjóðandi þeirra í kosningunum í nóvember.

Washington og Goldwyn léku saman í þáttunum Scandal. Kaling hefur áður stutt Harris opinberlega en Navarro er Repúblikani en hefur stutt Demókrataflokkinn frá því að Trump tók við forystu í Repúblikanaflokknum.

Fimmtíu þúsund gestir

Búist er við allt að fimmtíu þúsund gestum á ráðstefnuna sem hefst á morgun. Fjölmargir þekktir Demókratar munu taka til máls á ráðstefnunni. Obama og Clinton hjónin munu bæði halda ræðu en núverandi forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, opnar ráðstefnuna á morgun.

Kamala Harris og varaforsetaefni hennar Tim Walz eru á leið á ráðstefnuna saman í rútu. Í dag voru þau, ásamt mökum, í Pennsylvaníu þar sem þau héldu ræður og ræddu við almenning. Í umfjöllun AP um málið segir að ríkið sé Demókrötum afar mikilvægt og því hafi Harris sem dæmi heimsótt það átta sinnum á þessu ári, tvisvar í þessum mánuði. Trump fór með sigur í ríkinu árið 2016 en Biden vann þar árið 2020.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.