Í síðustu viku kannaði Seðlabankinn væntingar 36 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði til þróunar verðbólgu. Niðurstöðurnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 6,2% á yfirstandandi ársfjórðungi, samkvæmt tilkynningu frá Seðlabankanum. Það væri meiri verðbólga en þeir væntu í síðustu könnun sem gerð var í apríl. Markaðsaðilar reikni hins vegar með verðbólga verði 4,3% að ári liðnu, samanborið við 4,6% í síðustu könnun.

Hagsjá Landsbankans er á svipuðum slóðum og markaðasaðilar í könnun Seðlabankans og spáir því að verðbólga verði 6,3 prósent í þessum mánuði. Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Landsbankanum segir aukna verðbólgu að undanförnu hafa komið á óvart.
„Og það eru ýmsir hagvísar sem benda til þess að það sé enn þá mikill eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu. Við sjáum það að kortavelta Íslendinga hefur verið töluverð á undanförnum mánuðum. Það er mikil spenna á fasteignamarkaði,“ segir Una.

Þá hafi kortavelta útlendinga hér á landi einnig aukist milli ára sem yki líka spennuna í hagkerfinu. Það hafi því ekki slaknað eins mikið á hagkerfinu og áður hafi verið talið á háir vextir myndu leiða til. Una segir Hagsjá Landsbankans þó reikna með að verðbólga fari að gefa eftir á síðasta ársfjórðungi þessa árs og á fyrstu mánuðum næsta árs og verði að meðaltali sex prósent á þessu ári.
Seðlabankinn greinir frá ákvörðun sinni um meginvexti á miðvikudag en þeir hafa verið óbreyttir í 9,25 prósentum frá því í ágúst í fyrra eins og áður sagði. Markaðsaðilar reikna almennt með að Seðlabankinn lækki ekki vextina og Una tekur undir það.
„Óbreytt, að vextir verði óbreyttir.“
Og þá búnir að vera það í tólf mánuði?
„Já, ég held að það sé lang líklegasta niðurstaðan,“ segir Una Jónsdóttir.
Verðbólga jókst um 0,5 prósentustig frá júní til júlí þegar hún mældist 6,3 prósent en hún var 7,7 prósent þegar Seðlabankinn hækkaði meginvexti sína í 9,25 prósent í ágúst í fyrra. Nýgerðir kjarasamningar í byrjun árs með hóflegum launahækkunum áttu að stuðla að hjöðnun verðbólgu og þar með lækkun vaxta en það hefur ekki gengið eftir.