Upp­gjörið og viðöl: FH - Valur 2-2 | Ó­trú­leg dramatík í Kapla­krika

Andri Már Eggertsson skrifar
Björn Daníel bjargaði stigi fyrir sína menn.
Björn Daníel bjargaði stigi fyrir sína menn. Vísir/Anton Brink

Ótrúlegar lokamínútur áttu sér stað þegar FH tók á móti Val í 19. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Kristinn Freyr Sigurðsson hélt að hann hefði tryggt Val stigin þrjú með marki þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma en fyrirliðinn Björn Daníel Sverrisson var á öðru máli og bjargaði stigi fyrir heimamenn með marki á 97. mínútu.

Eftir afar rólegar fimmtán mínútur færðist líf í leikinn. Tryggvi Hrafn Haraldsson, leikmaður Vals, braut ísinn á 18. mínútu. Birkir Már Sævarsson renndi boltanum þvert fyrir markið á Tryggva sem skoraði af stuttu færi.

Eftir að hafa lent undir skapaði FH afar lítið á síðasta þriðjungi. Heimamenn gátu bölvað því að skot Sigurðar Bjarts Hallssonar hafi farið í stöngina í stöðunni 0-0 en fleira var það ekki í fyrri hálfleik.

Staðan í hálfleik var 0-1.

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleik afar illa, gestirnir tengdu varla sendingu. FH-ingar gátu sjálfum sér um kennt að hafa ekki tekist að jafna á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks en Bjarni Mark Antonsson, leikmaður Vals, þurfti meðal annars að bjarga á línu.

Eftir 87 mínútur af tíðindalitlum leik fóru hjólin að snúast. Sigurður Bjartur Hallsson jafnaði metin eftir að Ögmundur varði skalla frá Arnóri Borg Guðjohnsen.

Uppbótartíminn var níu mínútur og það átti nóg eftir að gerast. Kristinn Freyr Sigurðsson kom Val yfir á 94. mínútu þar sem hann átti laglegt skot í fjærhornið.

Þremur mínútum síðar bjargaði Björn Daníel Sverrisson stigi fyrir heimamenn. Ísak Óli Ólafsson átti skalla og á endanum náði Björn Daníel að koma boltanum í markið. Niðurstaðan 2-2 jafntefli.

Atvik leiksins

Jöfnunarmark Björns Daníels Sverrissonar á 97. mínútu var atvik leiksins. Valsmenn héldu að þeir væru að fara sleppa með skrekkinn og vinna leikinn þrátt fyrir lélega spilamennsku en Björn Daníel sá til þess að svo væri ekki. 

Stjörnur og skúrkar

Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH, var öflugur á miðjunni og reyndist Valsmönnum afar erfiður. Björn kórónaði síðan öflugan leik með því að tryggja FH-ingum stig á 97. mínútu.

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Vals, var varla sjáanlegur inni á vellinum og var ekki í neinum takti við leikinn.

Dómarinn

Elías Ingi Árnason dæmdi leik kvöldsins og gerði það vel. Uppbótartíminn var níu mínútur sem var í lengri kantinum en úr varð fjörugri leikur fyrir vikið.

Elías Ingi fær 7 í einkunn.

Stemning og umgjörð

Venju samkvæmt var allt til fyrirmyndar í Hafnarfirðinum í kvöld. Fyrir leik var boðið upp á spurningakeppni og einnig gátu krakkar skellt sér í hoppukastala. Kaplakrikavöllur var iðagrænn og glæsilegur og alls voru 857 áhorfendur á vellinum.

„Svekkjandi en svona er bara fótbolti“

Srdjan Tufegdzic (Túfa) var svekktur að hafa ekki unnið leikinnVísir/Ívar

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, var svekktur eftir að hafa ekki tekist að vinna leikinn þrátt fyrir að Valur hafi komist tvisvar yfir.

„Þetta var mikill rússíbani þessi leikur. Bæði fyrri og seinni hálfleikur. Miðað við hvernig staðan var og við vorum með sigurinn í okkar höndum var afar svekkjandi að verjast ekki föstu leikatriði. Þetta var mjög svekkjandi en svona er bara fótbolti,“ sagði Tufegdzic eftir leik.

Spilamennska Vals var fín í fyrri hálfleik en Tufegdzic tók undir það að liðið hafi gefið eftir í seinni hálfleik.

„Við vorum með leikinn í jafnvægi í fyrri hálfleik en það var smá vindur á annað markið sem hafði þau áhrif að við vorum meira með boltann í fyrri hálfleik en FH í seinni hálfleik. Kannski situr það í okkur að við vorum að spila sjöunda leikinn á 26 dögum og það hafa verið mikil meiðsli í liðinu eftir að ég kom inn og það situr í liðinu að við höfum ekki fengið alvöru viku til þess að æfa. Mér finnst samt mikill karakter í liðinu og það var mjög svekkjandi að ná ekki að halda út og ná í stigin þrjú.“ 

Valur hefur leikið sjö leiki á 26 dögum og Tufegdzic sagði að það væri þreyta í liðinu en álaginu er lokið og núna er vika á milli næstu leikja hjá liðinu.

„Núna erum við að fá viku á milli leikja og við getum æft eins og menn og gert hlutina öðruvísi. Þetta var rússíbani í dag og við vorum með þrjú stig í vasanum en á endanum var þetta sanngjörn niðurstaða,“ sagði Tufegdzic að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira