Sport

Telur sig geta bætt elsta heims­metið í frjálsum í­þróttum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keely Hodgkinson fagnar hér gullverðlaunum sínum á Ólympíuleikunum í París.
Keely Hodgkinson fagnar hér gullverðlaunum sínum á Ólympíuleikunum í París. Getty/Adam Pretty

Keely Hodgkinson er full sjálfstrausts eftir að hafa unnið gullverðlaun í 800 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í París á dögunum.

Hodgkinson er 22 ára gömul en sýndi styrk sína með frábæru úrslitahlaupi á leikunum og nú vill hún enn meira.

Heimsmetið í 800 metra hlaupi kvenna er orðið 41 árs gamalt og er það elsta í frjálsum íþróttum í dag. Metið setti hin tékkneska Jarmila Kratochvilova í júlímánuði árið 1983 þegar hún hljóp á einni mínútu, 53 sekúndum og 28 sekúndubrotum.

Hodgkinson vann Ólympíugullið á einni mínútu, 56 sekúndum og 72 sekúndubrotum en hefur hlaupið hraðast á einni mínútu, 56 sekúndum og 61 sekúndubroti sem er sjöundi besti tími sögunnar.

Í samtali við breska ríkisútvarpið er Hodgkinson bjartsýn á það að geta slegið þetta eldgamla heimsmet.

„Ég myndi elska að ná því. Ég trúi því að ég geti það,“ sagði Keely Hodgkinson.

Engin kona hefur hlaupið undir einni mínútu og 54 sekúndum síðan að Kratochvilova setti metið.

Hodgkinson er enn svona ung og hefur verið að bæta sig hratt undanfarin ár ýtir undir bjartsýni fólks á að þetta met gæti mögulega verið í hættu í framtíðinni.

Met Kratochvilovu hefur lengi verið talið ósláanlegt en augun verða nú á Hodgkinson og hversu nálægt metinu hún kemst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×