Innlent

Helgi Magnús situr heima meðan Guð­rún leitar sér ráð­gjafar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Guðrún Hafsteinsdóttir að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. vísir/einar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra getur ekki sagt til um hvenær mál Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara verður afgreitt innan ráðuneytisins. Á meðan situr Helgi Magnús heima.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari lagði til við dómsmálaráðherra fyrir þremur vikum að Helgi Magnús yrði leystur tímabundið frá störfum vegna kæru á hendur honum fyrir ummæli um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum.

Málið hefur verið mikið í umræðunni og hefur Sigríður einnig beðið Helga Magnús um að skila tölvu og lyklum á meðan málið væri til skoðunar. Sú beiðni var að vísu afturkölluð skömmu síðar. 

Guðrún var spurð út í málið að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. 

„Ég er ekki búin að fá þau gögn sem ég þarf til að byggja mína ákvörðun á, þangað til þurfum við að bíða eftir því,“ sagði Guðrún. 

Frá því að málið kom upp hefur umræða skapast um það hvort ríkissaksóknari hafi í raun vald til þess að áminna vararíkissaksóknara, eða hvort ríkissaksóknari sé í raun yfirmaður vararíkissaksóknara.

„Nei, ég held ekki,“ sagði Guðrún spurð hvort vafi leiki á þessu atriði. „En ég er að bíða eftir álitum. Ég er að leita mér ráðgjafar og mun ekki taka afstöðu til málsins fyrr en að því loknu.“

Guðrún segir ómögulegt að segja hvenær það verði. Á meðan verður Helgi Magnús háttsettur embættismaður á launum við að gera lítið sem ekki neitt. Hún tekur þó undir það að málið sé bagalegt.

„Það er vissulega bagalegt í öllum einingum þegar það kemur upp einhver svona vandkvæði koma upp meðal starfsmanna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×