Stendur til að gera öllum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð á næstu fjórum vikum í samræmi við yfirtökulög.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eik en fyrirhugað tilboðsverð mun hljóða upp á 11 krónur á hlut og mun greiðast með reiðufé. Samkvæmt lögum myndast yfirtökuskylda þegar aðili eða samstarfsaðilar ná stjórn á yfir 30 prósent atkvæðisréttar í félagi.
Tilboðsgjafi er Langisjór en samstarfsaðilar teljast vera Síldarbein ehf., sem fer með 17.446.234 hluti í Eik, og Brimgarðar ehf., sem fer með 563.615.003 hluti í Eik.
Hluti af Mata-veldinu
Langisjór er móðurfélag Ölmu íbúðafélags og áðurnefndra Brimgarða. Matvælafyrirtækin Matfugl, Salathúsið, Síld og fiskur og Salathúsið eru einnig hluti af Langasjó. Félagið er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Þau eru einnig þekkt sem Mata-systkinin og eru kennd við matvælafélagið Mata sem er jafnframt í eigu þeirra.
Arion banki hefur verið ráðinn sem umsjónaraðili með yfirtökutilboðinu. Stjórn fasteignafélagsins Regins, sem nú ber heitið Heimar, féll frá yfirtökutilboði sínu í allt hlutafé Eikar fasteignafélags í maí á þessu ári. Brimgarðar, félag Mata-fjölskyldunnar, var stærsti eigandi fasteignafélagsins Eikar fyrir söluna í dag og lagðist gegn yfirtökutilboði Regins í félagið. Þar áður kannaði fasteignafélagið Reitir sameiningu við Eik.